Skip to main content
3. mars 2015

Verk eftir Áskel Másson á háskólatónleikum 4. mars

Guðný Guðmundsdóttir, víóla, Júlía Mogensen, selló, og Richard Simm, píanó, leika verk eftir Áskel Másson á háskólatónleikum í Hátíðasal Háskóla Íslands sem fram fara miðvikudaginn 4. mars nk. Meðal verkanna er  tríó fyrir víólu, selló og píanó sem ekki hefur verið flutt áður með víólu. Tónleikarnir hefjast kl. 12.30, ókeypis er inn á þá og allir velkomnir.

Um tónskáldið og flytjendurna

Áskell Másson er meðal okkar merkustu tónskálda. Verk hans, hátt á annað hundrað, eru fjölbreytt: einleiks- og hljómsveitarverk, óperur og óratoríur, sönglög og kórverk. Hann hefur samið fyrir marga heimskunna listamenn og verkin verið leikin um allan heim. Áskell hefur hlotið margvíslega viðurkenningu fyrir list sína hér heima og erlendis.

Á tónleikunum verða leikin verkin:

Fantasiestück frá árinu 2004 fyrir einleikspíanó er byggt á mótífum kringum nóturnar a, h og e ásamt íslensku þjóðlagi úr Önundarfirði sem Sigurður Þórðar¬son skrásetti. Lagið er þekkt með texta sem hefst á orðunum Eftir þann dóm.

Tríó fyrir víólu, selló og píanó var upphaflega samið fyrir klarinett 1985 og frumflutt í Norræna húsinu það ár. Tríó Beethovens í B-dúr ópus 11 var flutt við sama tækifæri og var þess óskað að nýja verkið kallaðist á við verk Beethovens. Ég kaus að nota brot úr Pria ch´io limpegno sem Beethoven notar í tilbrigðaformi í þriðja þætti verks síns en bætti einnig við brotum úr íslensku þjóðlagi. Þessi víólugerð verksins er frumflutt á þessum tónleikum.

A voce Sola var samið upp úr víólukonsert mínum fyrir tónleika í Wigmore Hall í London í mars 1984. Unnur Sveinbjarnardóttir frumflutti verkið við það tækifæri, en konsertinn var saminn með hana í huga.

Guðný Guðmundsdóttir gegndi starfi fyrsta konsertmeistara við Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 1974 -2010. Hún leiddi hljómsveitina undir stjórn margra heimsþekktra hljómsveitarstjóra og lék með mörgum frægustu einleikurum og einsöngvurum heims. Auk konsertmeistarastarfsins hefur hún kennt við Tónlistarskólann í Reykjavík í nær fjóra áratugi og einnig hin síðari ár við LHÍ. Guðný hefur komið fram sem einleikari, í kammertónlist og sem gestakennari víða í Banda-ríkjunum, Evrópu og einnig Asíulöndum.

Tónlistarmenntun sína hlaut Guðný við Tónlistarskólann í Reykjavík og naut þar leiðsagnar Björns Ólafssonar. Síðar við Eastman School of Music og Juilliard í New York þar sem aðalkennarar hennar voru Carroll Glenn og Dorothy DeLay. Guðný hefur allt frá námsárum sínum komið fram á víólu, einkum í kammertónlist.

Júlía Mogensen lærði á selló hjá Gunnari Kvaran við Tónlistarskólann í Reykjavík og síðar við LHÍ og útskrifaðist þaðan með B.Mus.-próf 2006. Hún stundaði framhaldsnám við Guildhall School of Music and Drama í London og dvaldi í Berlín í tvö ár og var þar í einkatímum hjá Claudio Bohorquez. Júlía hefur leikið með ýmsum tónlistarhópum, unnið með tónlistarmönnum víða að og leikur nú með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Richard Simm vakti athygli sextán ára gamall með leik sínum á píanókonsert nr. 1 eftir Liszt. Hann nam við Royal College of Music hjá Bernard Roberts og við Staatliche Hochschule für Musik í München hjá Erik Then-Bergh. Á námsárumum vann hann til margra verðlauna, fékk þ.á m. tvenn verðlaun fyrir túlkun sína á verkum Chopin. Í níu ár var hann fastráðinn píanóleikari og kennari við háskólann í Wales og gestaprófessor við Illinois-háskólann í þrjú ár. Richard settist að hér árið 1989 og hefur síðan þá komið fram með mörgum helstu tónlistarmönnum landsins, leikið einleik með Sinfóníuhljómsveitinni og komið fram á Listahátíð. Hann starfar nú sem píanókennari við LHÍ.

Guðný Guðmundsdótti, Richard Simm og Júlía Mogensen
Guðný Guðmundsdótti, Richard Simm og Júlía Mogensen