Skip to main content

„Verðum að taka niðurstöður PISA alvarlega“

23. feb 2017

„Niðurstöður PISA-rannsóknarinnar 2015 benda til þess að hæfni íslenskra nemenda í læsi á náttúrufræði hafi farið aftur og eru skýr teikn um að íslenskir nemendur séu slakastir af norrænum jafnöldrum sínum. Aftur á móti er viðhorf íslenskra nemenda til náttúruvísinda jákvætt og vitund þeirra um umhverfismál hefur aukist,“ segir Auður Pálsdóttir, lektor í náttúrufræði við Menntavísindasvið, en hún flutti erindi um stöðu íslenskra nemenda í náttúrufræði í fundaröð um PISA við Háskóla Íslands fimmtudaginn 23. febrúar.

Hafa mikla trú á eigin getu en fá litla endurgjöf

„Þegar skoðaðar eru niðurstöður fyrir einkenni náttúrufræðikennslu að mati nemenda upplifa þeir ríkari stuðning frá kennurum í náttúrufræðitímum en jafnaldrar þeirra á Norðurlöndum og eru í hópi þeirra sem hafa einna mesta trú á eigin getu í náttúruvísindum í sama samanburðarhópi. Þá virðast íslenskir unglingar stunda talsvert minna af tilraunum og rannsóknum en nemendur í Noregi, Svíþjóð og Danmörku,“ útskýrir Auður um einkenni kennslu og kennsluhátta í náttúrufræði hér á landi.

En hvað skýrir slaka frammistöðu íslenskra ungmenna? „Íslenskar rannsóknir á náttúrufræðimenntun og skólastarfi í grunnskólum benda til þess að efni og uppbygging útgefinna kennslubóka virðist stýra kennsluháttum kennara mikið og sýnu meira hjá þeim kennurum sem ekki hafa sérþekkingu í náttúrufræðum. Þá virðast íslenskir nemendur fá langminnsta endurgjöf um árangur sinn frá náttúrufræðikennurum miðað við jafnaldra þeirra á Norðurlöndum.“

Margt þarf að koma til ef efla á læsi nemenda í náttúruvísindum að hennar mati. Meðal annars sé brýnt að bæta orðaforða og lesskilning unglinga, styrkja endurgjöf til nemenda, styrkja teymiskennslu og styðja betur unglingakennara.

Gefur mikilvægar upplýsingar um stöðu menntakerfisins

Auður segir að rýni í niðurstöður á PISA-gögnunum af þessu tagi og samanburður við rannsóknir á íslensku skólastarfi gefi mikilvægar upplýsingar um stöðu menntakerfisins. „Spurningar á PISA-prófinu virðast falla vel að þeim kröfum sem gerðar eru til skólastarfs í aðalnámskrá og því má horfa á PISA-rannsóknina sem tiltekna mælingu á hvernig gengur að vinna eftir henni. Einnig ríma niðurstöðurnar við það sem fyrri rannsóknir á íslensku skólastarfi hafa dregið fram. Í hnotskurn þýðir þetta að við verðum að taka niðurstöður PISA alvarlega enda virðast viðfangsefnin á prófinu reyna á hæfni sem nemendur í 10. bekk ættu flestir að hafa náð.“

Erindi Auðar vr hluti af fundaröðinni PISA í hnotskurn – Staða íslenskra nemenda í alþjóðlegum samanburði sem Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Menntamálastofnun standa fyrir. Fundurinn fór fram fimmtudaginn 23. febrúarí húsnæði Menntavísindasviðs við Stakkahlíð og var streymt beint.

Síðasti fundurinn í fundaröðinni verður 2. mars eins og lesa má um á þessari slóð

Auður Pálsdóttir