Skip to main content
11. maí 2016

Verðlaunuð fyrir störf í þágu náms- og starfsráðgjafar

Jónína Kárdal, náms- og starfsráðgjafi við Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands, hefur hlotið viðurkenningu hollvinasamtaka Mennta- og starfsþróunardeildar Minnesota-háskóla, „Rising Alumni Award“, fyrir árangur á starfsferli og leiðtogahæfni. Jónína tók við viðurkenningunni í Bandaríkjunum á dögunum.

Jónína hlýtur viðurkenninguna fyrir störf sín innan Háskóla Íslands og fyrir fagstétt náms- og starfsráðgjafa á Íslandi. Jónína lauk kennaranámi við Kennaraháskóla Íslands og námi í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands áður en hún hélt utan til meistaranáms í náms- og starfsráðgjöf við Minnesota-háskóla í St. Paul en þar sleit hún sjálf barnsskónum. Jónína lauk því námi árið 1999 og var í framhaldinu ráðin sem náms- og starfsráðgjafi við Háskóla Íslands og hefur starfað við skólann æ síðan.

Frá þeim tíma hefur nemendafjöldi við Háskóla Íslands um það bil tvöfaldast og verkefnum náms- og starfsráðgjafa fjölgað og þau breyst. Jónína hefur tekið virkan þátt í að þróa þjónustu við stúdenta Háskólans á sviði náms- og starfsráðgjafar, en skrifstofa Náms- og starfsráðgjafar veitir nemendum m.a. ráðgjöf um námsval, skipulagningu náms, sértæk úrræði og undirbúning fyrir atvinnulífið svo fátt eitt sé nefnt. Náms- og starfsráðgjöf Háskólans sinnir einnig starfsþjálfun verðandi náms- og ráðgjafa og hefur Jónína stýrt þróun þess ásamt því að sinna stundakennslu í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands.

Þá hefur Jónína látið mikið að sér kveða á vettvangi Félags náms- og starfsráðgjafa á Íslandi og hlaut m.a. viðurkenningu félagsins árið 2010 fyrir störf í þágu fagstéttarinnar. Hún hefur einnig tekið þátt í norrænum og samevrópskum samstarfsverkefnum náms- og starfsráðgjafa.

Jónína var í hópi tólf fyrrverandi nemenda Mennta- og starfsþróunardeildar Minnesota-háskóla sem fengu viðurkenningu að þessu sinni. Hollvinasamtök deildarinnar veita viðurkenningarnar þeim nemendum sem þykja hafa náð góðum árangri á starfsferlinum, sýnt leiðtogahæfni og unnið gott starf í því samfélagi sem þau búa.

Nánari upplýsingar um störf Jónínu má sjá á heimasíðu Minnesota-háskóla.

Jónína Kárdal
Jónína Kárdal ásamt hluta þess hóps sem tók við viðurkenningu hollvinasamtaka Mennta- og starfsþróunardeildar Minnesota-háskóla