Skip to main content
18. apríl 2016

Vegurinn í átt að minna vistspori í nýrri heimildarmynd

„Hugmyndin kviknaði þegar við vorum látin mæla vistspor okkar í náminu og mitt var ansi stórt. Ég fór þá að velta fyrir mér hvað ég þyrfti að gera til að lifa sjálfbæru lífi eins og það var skilgreint af aðferðafræðinni. Ég ákvað að reyna að gera þetta og gefa mér ákveðið langan tíma í það. Það lá svo einhvern veginn beint við að mynda ferlið og gera úr þessu heimildarmynd.“ Þetta segir Sigurður Eyberg Jóhannesson, umhverfis- og auðlindafræðingur og doktorsnemi í umhverfisfræði við Háskóla Íslands. Hann frumsýnir ásamt kvikmyndafyrirtækinu BROS heimildarmyndina „Maðurinn sem minnkaði – vistsporið sitt“ miðvikudaginn 20. apríl í Háskólabíói. Sýningin er í samstarfi við námsbraut í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands sem fagnar tíu ára afmæli í ár. Þar verður jafnframt boðið upp á pallborðsumræður um umhverfismál með þátttöku fólks úr stjórnmálum, háskólasamfélagi, frá félagasamtökum og atvinnulífi.

Sigurður útskrifaðist úr umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands árið 2010. Í lokaverkefni sínu rýndi hann í vistspor Íslands en að sögn Sigurðar er vistspor leið til að meta hversu stóran hluta jarðarinnar við notum til að viðhalda neyslumynstri okkar. Mæla má vistspor þjóða eða minni eininga eins og borga, bæja, fyrirtækja, landssvæða og einnig einstaklinga. „Vistsporið er mælt með því að taka saman alla neyslu einstaklingsins eða heildarinnar sem um ræðir og meta umhverfisálagið. Það er gert með svokölluðum LCA-aðferðum en þar er reynt að meta umhverfisálag vöru frá vöggu til grafar, þ.e. allan líftíma vörunnar frá upptöku hráefna, framleiðslu, notkun og til endurvinnslu eða annarrar förgunar. Þessu álagi er svo umbreytt í það landsvæði af frjóu landi sem þarf til að standa undir heildarneyslunni. Vistsporið verður þannig stærð þess svæðis sem viðkomandi þarf til að lifa lífinu eins og hann gerir,“ útskýrir Sigurður.

Skortur á slíkum mælingum á Íslandi varð til þess að hann ákvað að taka vistspor landsins í heild fyrir í lokaverkefni sínu. „Ég hafði áhyggjur af neyslugeggjuninni sem hefur tröllriðið okkar samfélagi síðustu ár. Niðurstöðurnar voru nokkuð sláandi og sýndu kannski hið augljósa – við erum afar neyslufrek þótt við séum fá. Og miðað við höfðatölu er líklega engin þjóð jafnslæm og við,“ segir Sigurður.

Höfum fyllt líf okkar af gerviþörfum

Afsprengi þessara pælinga Sigurðar í vistsporum er ekki aðeins lokaritgerðin því eins og áður hefur verið nefnt reyndi hann sjálfur minnka vistspor sitt og lifa sjálfbæru lífi og myndaði öll herlegheitin í samstarfi við hóp fólks. Úr varð heimildarmyndin „Maðurinn sem minnkaði – vistsporið sitt“. „Myndin nær yfir sjö mánaða tíma en vinnslutíminn var óralangur. Það sést eignlega best á því þegar hann Atli Þór, öndvegisdrengur sem klippti fyrir okkur myndina, sagðist eiginlega hafa alist upp með myndinni!“ segir Sigurður léttur í bragði.

Aðspurður hvað hafi komið honum mest á óvart við gerð myndarinnar segir Sigurður að skrefið í átt að sjálfbærara lífi sé ekki eins stórt og margir halda. „Breytingar á lífstíl sem virðast gríðarstórar úr fjarlægð eru svo bara ekkert mál þegar á hólminn er komið. Við erum búin að fylla líf okkar af gerviþörfum svo maður grípi nú í gamalt og gott eitís-hugtak,“ segir Sigurður enn fremur.

Þeir sem vilja sjá hvernig Sigurði tókst til eru boðnir velkomnir á frumsýningu myndarinnar í sal 2 í Háskólabíói miðvikudaginn 20. apríl kl. 15. Ókeypis er á sýninguna sem eins og fyrr segir er haldin í samstarfi við námsbraut í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands í tilefni tíu ára afmælis brautarinnar. Að lokinni frumsýningu myndarinnar verður efnt til pallborðs þar sem stór hópur, sem fæst við umhverfismál með einum eða öðrum hætti tekur þátt, þar á meðal Sigurður. 

Áframhaldandi líf á jörðinni undir

Umræðan um breytt neyslumynstur og sjálfbærari lífstíl hefur aukist mjög á síðustu árum samfara aukinni þekkingu manna á áhrifum mikillar neyslu á jörðina en hægt þokast að margra mati. Aðspurður hvað gera þurf til þess að þjóðir heims fikri sig hraðar í átt að sjálfbærara samfélagi segir Sigurður að ræða þurfi málin af meiri alvöru. „Það væri gaman að geta þulið upp einhvern lista af aðgerðum sem grípa þarf til en það er ekki hægt að grípa til aðgerða þegar við erum ekki einu sinni sammála um að það séu vandamál til staðar. Þess vegna þurfum við einfaldlega að fara að ræða saman. Við þurfum líka að passa að umræðan falli ekki í einhverjar pólitískar skotgrafir, málið er hafið langt yfir það. Og kannski fyrst og fremst þurfum við að átta okkur á hvað er undir. Í mínum huga er það einfaldlega áframhaldandi líf á jörðinni. Ekki síst áframhaldandi mannlíf,“ segir hann.

Sigurður bendir enn fremur á að samkvæmt verstu sviðsmynd nýjustu skýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna gæti meðalhitastig á jörðinni hækkað um sex gráður. „Núna erum við að slaga upp í einnar gráðu hækkun og hamfarirnar sem við sjáum um allan heim eru ótrúlegar. Sex gráðu hækkun væri ekki bara sex sinnum verri heldur margfalt verri því við erum alltaf að fjarlægjast jafnvægið meira og meira. Þegar við sem heild áttum okkur á þessu gerum við eitthvað,“ segir hann.

En hvernig getur hinn almenni borgari lagt sitt af mörkum til að draga úr vistspori sínu? „Meðan ekki er hægt að fljúga nema á jarðefnaeldsneyti þarf líklega að draga úr flugi eins og mögulegt er. Þá þarf að draga úr akstri og kaupa metan- eða rafmagnsbíl næst þegar keyptur er bíll - ef hann er nauðsynlegur. Svo er það kaupgeggjunin. Nánast allt sem við kaupum er framleitt með olíu. Allt dótið okkar, rafmagnstækin, símarnir, tölvurnar, húsgögnin, svo ég tali nú ekki um allt plastdraslið sem við sönkum að okkur – allt hefur þetta kolefnisspor. Svarið við þessu er að kaupa aðeins notaða hluti. Notaðir hlutir hafa ekkert kolefnis- eða vistspor. Ef menn gera þetta þrennt eru þeir komnir langleiðina í sjálfbærum lífstíl,“ segir Sigurður að endingu.

Sigurður Eyberg
Sigurður Eyberg