Skip to main content
8. júní 2017

Vegna umræðu um nám í hjúkrunarfræði

""

Yfirlýsing frá deildarfundi og deildarforseta Hjúkrunarfræðideildar um stöðu mála varðandi BS-nám í hjúkrunarfræði fyrir fólk með aðra háskólagráðu.

Hjúkrunarfræðingar hafa sýnt sterk viðbrögð vegna umræðu um mögulegt nám fyrir fólk með aðra prófgráðu til að ljúka námi í hjúkrun á styttri tíma en hefðbundnum fjórum árum. Deildarfundur Hjúkrunarfræðideildar 8. júní 2017 fagnar þeirri umræðu sem orðið hefur og sérstaklega því viðhorfi hjúkrunarfræðinga að nám í hjúkrunarfræði skuli ekki gjaldfellt. Það er og hefur aldrei verið markmiðið með því að skoða þessa leið. Þvert á móti að styrkja hjúkrun og hjúkrunarstarf með aukinni fjölbreytni þeirra sem sækja í hjúkrun.

Hvatinn að því að verið er að skoða nám til BS-prófs fyrir fólk með aðra háskólagráðu er beiðni sem barst frá Landspítala um að hugað væri að slíku námi. Mikil reynsla er af slíku námi í Bandaríkjunum og samþykkti Hjúkrunarfræðideild að skoða hvort mögulegt væri að bjóða uppá slíkt nám hér. Fulltrúar Hjúkrunarfræðideildar, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og Landspítala fóru til háskólans í Minnesota nú í vor til að kynna sér tilhögun náms þar fyrir fólk með annað háskólapróf. Námið er mjög vinsælt þar og mat hjúkrunarstjórnenda á útskrifuðum nemendum er að þeir standi sig mjög vel í starfi.  

Megin forsendur Hjúkrunarfræðideildar eru að gæði námsins verði sambærileg núverandi námi til BS-prófs í hjúkrunarfræði í Háskóla Íslands. Háskólinn hefur frá upphafi boðið uppá hágæða nám í hjúkrunarfræði og bera hjúkrunarfræðingar sem útskrifast hafa frá deildinni því vitni. Þar er vísað í hjúkrunarfræðinga sem hafa útskrifast úr grunnnámi, meistaranámi og doktorsnámi. Jafnframt bera úttektir á náminum gæðum þess vitni. Hjúkrunarfræðideild mun aldrei hvika frá því markmiði að bjóða upp á hjúkrunarfræðinám í hæsta gæðaflokki. 

Aðrar megin forsendur fyrir að fara af stað með slíkt nám er að sérstök fjárveiting fáist til námsins, að unnt sé að samþjappa námskeiðum og sérkenna og að unnt sé að víkja frá ýmsum forsendum um skipulag háskólanáms eins og tímamörk. Þannig væri mögulega hægt að nota til klínískrar kennslu á heilbrigðisstofnunum tímabil, sem ekki eru nýtt til kennslu í grunnnámi. 

Einvörðungu yrðu teknir inn í námið nemendur sem lokið hafa háskólaprófi. Við einstaklingsbundið mat á nemendum yrði haft að leiðarljósi að aðferðir og hugmyndafræði sem nemendur hafa fengið í fyrra námi nýtist inn og geti auðgað nám í hjúkrunarfræði.  Mat á fyrri námskeiðum mun fylgja reglum HÍ.

Í undirbúningshópi fyrir mögulegt nám sitja af hálfu Háskóla Íslands Helga Jónsdóttir deildarforseti, Herdís Sveinsdóttir, verðandi deildarforseti, Hrund S. Thorsteinsson. fulltrúi Landspítala. og Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Þessi hópur mun fara á fund heilbrigðisráðherra ásamt Ingu Þórsdóttur, forseta heilbrigðisvísindasviðs HÍ. Vert er að taka fram að engar tillögur liggja fyrir um námskrá og mun vinna að henni ekki hefjast fyrr en vitað er um afstöðu heilbrigðisráðherra og hvort fjármögnun fáist til námsins.

Helga Jónsdóttir, deildarforseti

Hjúkrunarfræðingar að störfum