Skip to main content
11. júní 2015

Vegleg ráðstefna vegna afmælis kosningaréttar kvenna

Hundrað ára afmælis kosningaréttar íslenskra kvenna verður minnst með veglegri ráðstefnu undir yfirskriftinni „Vald og lýðræði á Íslandi – 100 árum síðar“ fimmtudaginn 18. júní í Hátíðasal Háskóla Íslands. Bæði innlendir og erlendir fræðimenn taka þátt í henni.

Að ráðstefnunni standa Félagsvísindasvið Háskóla Íslands, Stjórnmálafræðideild skólans, Valds- og lýðræðisrannsóknarverkefnið, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála, Jafnréttisnefnd skólans og MARK, Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna. Meginþema ráðstefnunnar er margbreytileiki, þátttaka og lýðræðishugmyndir í íslensku samfélagi nú 100 árum eftir að kosningaréttur varð almennur á Íslandi.

Meðal þeirra sem flytja erindi á ráðstefnunni eru Sarah Childs, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann í Bristol, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, og Anna Guðrún Jónasdóttur, prófessor í stjórnmála- og kynjafræði við Háskólann í Örebro, en þeirri síðastnefndu verður veitt heiðursdoktorsnafnbót við Stjórnmálafræðideild á ráðstefnunni og verður hún þar með fyrsti heiðursdoktorinn við deildina.

Sarah Childs hefur einkum rannsakað tengslin milli kynferðis, kyngervis og stjórnmála og hefur hún birt fjölmargar rannsóknir tengdar þeim efnum. Hún hefur fjallað mikið um stjórnmálaþátttöku breskra kvenna og vaxandi hlut kvenna á breska þinginu. Auk þess hefur Childs verið sérlegur ráðgjafi þingnefnda á breska þinginu um jafnréttismál. Erindi Childs ber heitið „Reflecting on the Representation of Women in Politics“,. Þar fjallar hún um þann lýðræðishalla sem skapast þegar konur eru ekki virkir þátttakendur í stjórnmálum, hvort sem er sem kjósendur eða kjörnir fulltrúar.

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir hefur í fræðistörfum sínum einkum sérhæft sig í mannfræði stjórnmála og kynjamannfræði. Erindi hennar ber heitið „Men and the suffrage in Iceland“, og fjallar um þau 40% íslenskra karlmanna yfir 25 ára sem fengu fyrst kosningarétt á sama tíma og íslenskar konur. Grundvallarspurningin í erindi Sigríðar Dúnu er hvers vegna þessir karlar börðust ekki fyrir rétti sínum á sama hátt og konur.

Í erindi sínu að lokinni móttöku heiðursdoktorsnafnbótar við Stjórnmálafræðideild hyggst Anna Guðrún Jónasdóttir fara yfir rannsóknir sínar og fræðistörf undir yfirskriftinni „From Iceland to International Love Studies“. Anna Guðrún var fyrst íslenskra kvenna til að ljúka doktorsgráðu í stjórnmálafræði, gegna dósentsstöðu í stjórnmálafræði og prófessorsembætti í kynjafræði. Anna Guðrún er mikilvirkur fræðimaður og meðal þekktustu stjórnmála- og kynjafræðinga á Norðurlöndum og frumkvöðull í því að samþætta stjórnmálafræði og kynjafræði.

Einn liður ráðstefnunnar er vinnustofur fræðimanna sem fara fram fyrir hádegi þar sem þátttakendur í Valds- og lýðræðisrannsókn Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands kynna fyrstu niðurstöður í rannsóknum sínum. Rannsóknin er til fjögurra ára (2014-2017) og þar er athyglinni beint að megingerendum í valds- og lýðræðiskerfum íslensks samfélags, svo sem að löggjafanum, framkvæmdavaldinu, stjórnsýslunni, stjórnmálaflokkum, hagsmunasamtökum, fjölmiðlum og almenningi.

Í dagskránni eftir hádegi taka fulltrúar rannsóknarverkefnisins þátt í pallborðsumræðum þar sem þau ræða margbreytileika, þátttöku og lýðræðishugmyndir í íslensku samfélagi nú 100 árum eftir að kosningaréttur varð almennur.

Ráðstefnan hefst kl. 13 og fer fram á íslensku og ensku.

Aðgangur er ókeypis – öll velkomin.