Skip to main content
13. maí 2016

Varði doktorsritgerð um siðfræði félagsráðgjafar

""

Heidrun Wulfekühler hefur varið doktorsritgerð sína, The ethical purpose of social work: A neo-Aristotelian perspective, í hagnýtri siðfræði við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Svavar Hrafn Svavarsson, prófessor og deildarforseti Sagnfræði- og heimspekideildar, stýrði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands 6. maí síðastliðinn.

Andmælendur voru Margaret Rhodes, prófessor emerita við Háskólann í Massachusetts, og Sigurður Kristinsson, prófessor við Háskólann á Akureyri. Aðalleiðbeinandi Heidrunar var Vilhjálmur Árnason, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild, en í doktorsnefnd voru auk hans Sarah Banks, prófessor við Durham háskóla, og Kristján Kristjánsson, prófessor við Háskólann í Birmingham.

Um ritgerðina

Í ritgerð Heidrunar eru færð rök fyrir því að félagsráðgjöf sé í eðli sínu siðferðilegt starf. Siðferðilegir ábyrgðarþættir og siðferðileg málefni félagsráðgjafar séu ástæður þess að hún eigi rétt á sér í nútímasamfélagi, og réttmæti hennar ráðist af því að hún stefni að verðugu markmiði.

Röksemdafærslan er sett fram frá ný-aristótelísku sjónarhorni með áherslu á grundvallartilgang félagsráðgjafar og tengingu við almenna hugmynd um farsælt líf. Lykilhugtök í lýsingu á siðferðilegum kjarna félagsráðgjafar eru félagsleg útskúfun og þarfir þar sem þau einkenna vandamálin sem skjólstæðingar félagsráðgjafa standa andspænis og leiða til afskipta félagsráðgjafa. Í ritgerðinni er færnihugtak Mörthu Nussbaum rætt til að útskýra forsendur þess að mannsæmandi líf sé tryggt, en afskipti félagsráðgjafa stefna að því markmiði.

Í tengslum við fullyrðinguna um siðferðilegan kjarna félagsráðgjafar er spurt hvernig félagsráðgjafar geti bætt færni sína í að axla þá siðferðilega ábyrgð sem er órjúfanlegur hluti af starfi þeirra. Þessi spurning er sérlega mikilvæg í ljósi erfiðra og oft óhagstæðra aðstæðna sem félagsráðgjafar starfa við. Í ritgerðinni er því haldið fram að sérfræðingar séu í betri stöðu til að takast á við siðferðilegar áskoranir og veita slæmum starfsháttum viðnám þegar þeir hafa þróað með sér faglegar dygðir í skilningi ný-aristótelisma.

Um doktorsefnið

Heidrun Wulfekühler starfar sem félagsráðgjafi í Þýskalandi og hefur unnið á mörgum sviðum þess fags til fjölda ára. Hún lauk meistaragráðu í heimspeki við Háskóla Íslands árið 2008 og starfar nú sem aðstoðarmaður við rannsóknir við University of Applied Sciences í Osnabrück í Þýskalandi. Þar leggur hún stund á rannsóknir á tilhögun náms án aðgreiningar og þverfræðilegu samstarfi í leikskólanámi.




Heidrun Wulfekühler fyrir miðju.
Heidrun Wulfekühler fyrir miðju.