Skip to main content
19. febrúar 2015

Varði doktorsritgerð um siðfræði athyglinnar

Jón Ásgeir Kalmansson hefur varið doktorsritgerð sína, „Siðfræði athyglinnar: Rannsókn á þýðingu athygli og ímyndunarafls í siðferðilegu lífi“, við Sagnfræði- og heimspekideild. Doktorsvörnin fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands 13. febrúar síðastliðinn. 

Andmælendur voru dr. Sigrún Svavarsdóttir, dósent við Tufts-háskóla í Bandaríkjunum, og dr. Sigurður Kristinsson, prófessor við Háskólann á Akureyri. Dr. Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands var aðalleiðbeinandi doktorsverkefnisins en í doktorsnefnd sátu auk hans dr. Eyjólfur Kjalar Emilsson, prófessor við Óslóarháskóla, og dr. Logi Gunnarsson, prófessor við Potsdam-háskóla í Þýskalandi. Dr. Guðmundur Hálfdanarson, prófessor og deildarforseti Sagnfræði- og heimspekideildar, stjórnaði athöfninni.

Ágrip af rannsókn
Í ritgerðinni er tekin til skoðunar siðfræðileg nálgun er höfundur kennir við siðfræði athyglinnar. Siðfræði athyglinnar dregur sérstaklega fram og leitast við að varpa ljósi á tengsl siðferðis og grundvallarafstöðu fólks til veruleikans og um leið á þau form ímyndunarafls sem móta aðgát manna gagnvart honum. Siðfræði athyglinnar vísar því annars vegar til siðferðisvíddar er birtist með ýmsu móti í hversdagslegu lífi, heimspeki, bókmenntum og listum, trúarbrögðum, vísindum og svo framvegis, og hins vegar til siðfræðilegrar nálgunar þar sem sérstök áhersla er lögð á mikilvægi þessarar birtingarmyndar siðferðilegrar hugsunar og lífs. Skoðað er hvernig siðfræðikenningar geta verið misopnar fyrir þeirri vídd siðferðislífsins er varðar athygli og ímyndunarafl og hvernig það hefur áhrif á gagnrýnið mat á styrkleikum þeirra og veikleikum. Þá eru heimspekilegar forsendur siðfræði athyglinnar teknar til skoðunar. Sérstök áhersla er lögð á að skoða möguleika þess og þýðingu að sjá veruleikann sem undur og leyndardóm. Fjallað er um hvaða ljósi siðfræði athyglinnar varpar á hugmyndir um gildi mennskunnar, dýranna og náttúrunnar í heild. Rauður þráður í þeirri umfjöllun er að það undrunarfulla og samúðarríka form athygli og skilnings sem siðfræði athyglinnar heldur á lofti hjálpi okkur að hugsa með skýrari hætti um þýðingu hins mannlega, gildi annarra förunauta okkar í dýraríkinu og samband okkar við náttúruna.

Um doktorsefnið
Dr. Jón Ásgeir Kalmansson er fæddur 11. febrúar 1966. Hann ólst upp á bænum Kalmanstungu í Hvítársíðu í Borgarfirði.  Hann lauk BA-gráðu frá Háskóla Íslands árið 1992 og meistaragráðu frá UBC-háskóla í Vancouver í Kanada árið 1994. Árin 1994 til 2000 var hann starfsmaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Frá árinu 2000 hefur hann verið stundakennari og sjálfstætt starfandi fræðimaður.

Eiginkona Jóns er Ástríður Stefánsdóttir, dósent og deildarforseti Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar innan Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Synir þeirra eru Tryggvi Kalman Jónsson, eðlisfræðinemi við Háskóla Íslands, og Stefán Gunnlaugur Jónsson, nemi við Menntaskólann í Reykjavík.