Skip to main content
14. nóvember 2016

Varði doktorsritgerð um Jómsvíkinga sögu

""

Þórdís Edda Jóhannesdóttir hefur varið doktorsritgerð sína í íslenskum bókmenntum, Jómsvíkinga saga: Sérstaða, varðveisla og viðtökur, við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Andmælendur við doktorsvörn Þórdísar voru Marteinn Helgi Sigurðsson, doktor í norrænum fræðum og ritstjóri hjá Íslenzkum fornritum, og Judith Jesch, prófessor í víkingafræðum við Háskólann í Nottingham. Aðalleiðbeinandi var Ármann Jakobsson, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Íslensku- og menningardeild, en í doktorsnefnd voru auk hans Sverrir Tómasson, prófessor emeritus, og Alison Finlay, prófessor í enskum og íslenskum miðaldabókmenntum við Birkbeck College í London.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnaði athöfninni sem fram fól í Hátíðasal Háskóla Íslands mánudaginn 7. nóvember síðastliðinn. Hægt er að skoða myndir frá athöfninni með því að smella hér.

Um efni ritgerðarinnar

Jómsvíkinga saga er meðal elstu varðveittu veraldlegra sagna á Íslandi. Hún hefur að öllum líkindum verið skrifuð á fyrri hluta 13. aldar en er varðveitt í fjórum ólíkum gerðum frá miðöldum í jafnmörgum handritum. Fræðileg umfjöllun um söguna hefur einkum beinst að tveimur þáttum. Annars vegar hefur uppruni og tilurð sögunnar verið í brennidepli fræðimanna en hins vegar hvernig eigi að skilgreina hana. Hún hefur þótt falla illa að hefðbundinni flokkun íslenskra miðaldabókmennta vegna þess að í henni mætast einkenni konungasagna, Íslendingasagna og fornaldarsagna. Í rannsókninni er fjallað um Jómsvíkinga sögu í víðu samhengi með það í huga að textinn, varðveisla hans og hugmyndir um hann á ýmsum tíma geti skýrt stöðu hennar meðal íslenskra miðaldabókmennta. Um leið er textinn nýttur til þess að varpa ljósi á ýmsa þætti sagnaritunar á miðöldum. Jómsvíkinga saga er meðal elstu íslensku verka þar sem sögulegum atburðum er miðlað með aðferðum sem fremur einkenna skáldskap en sagnfræði. Í ritgerðinni eru færð rök fyrir því að nýjungar í bókmenntum á 12. öldinni á meginlandi Evrópu skipti máli þegar kemur að þróun íslenskra miðaldabókmennta um og upp úr 1200. Með nákvæmri greiningu á Jómsvíkinga sögu kemur í ljós blöndun hefða og nýjunga sem á eftir að taka á sig skýrari mynd í veraldlegum íslenskum miðaldabókmenntum á 13. og 14. öldinni.

Um Þórdísi

Þórdís lauk BA-prófi í íslensku við Háskóla Íslands og MA-gráðu í íslenskum bókmenntum við sama skóla. Hún er stundakennari við Háskóla Íslands.

Sverrir Tómasson, prófessor emeritus, Ármann Jakobsson prófessor, Þórdís Edda og Alison Finlay prófessor.
Sverrir Tómasson, prófessor emeritus, Ármann Jakobsson prófessor, Þórdís Edda og Alison Finlay prófessor.