Skip to main content
22. apríl 2015

Varði doktorsritgerð um heimspeki Ágústs H. Bjarnasonar

Jakob Guðmundur Rúnarsson hefur varið doktorsritgerð í heimspeki við Sagnfræði- og heimspekideild Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Ritgerðin nefnist Einhyggja, þróun og framfarir. Heimspeki Ágústs H. Bjarnasonar. Vörnin fór fram 20. apríl síðastliðinn í Hátíðasal HÍ.

Andmælendur voru dr. Guðmundur Heiðar Frímannsson og dr. Jörgen Pind. Dr. Gunnar Harðarson, prófessor í heimspeki við Sagnfræði- og heimspekideild, var aðalleiðbeinandi doktorsverkefnisins en í doktorsnefnd sátu auk hans dr. Guðmundur Hálfdanarson og dr. Henry Alexander Henrysson.

Ágrip af rannsókn
Við stofnun Háskóla Íslands var Ágúst H. Bjarnason (1875-1952) skipaður prófessor í heimspekideild. Hann gegndi því embætti næstu 34 árin og þegar hann lét af störfum var talið að hann hefði kennt um 1000 stúdentum heimspekileg forspjallsvísindi. Útbreiðsla og áhrif verka hans á sér fáar hliðstæður í samhengi íslenskrar heimspekisögu og nær engar á hans tíð.

Doktorsritgerðin greinir frá niðurstöðum rannsóknar á heimspeki Ágústs og starfsemi hans sem heimspekings í samhengi íslenskrar menningar á fyrrihluta 20. aldar. Rannsóknin miðaði fyrst og fremst að því að draga fram og greina bæði heimspekilegt innihald og sögulegt samhengi verka hans í víðum skilningi. Leitast er við að benda á þá annmarka sem hafa einkennt ráðandi hugmyndir samtímans um heimspeki hans og gæða mynd okkar af honum sem opinberum menntamanni aukinni dýpt og skerpu. Hvort sem borið er niður á sviði siðfræði, þekkingarfræði, heimspekisögu eða sálarfræði í höfundarverki Ágústs kemur í ljós að verk hans veita markverða sýn á sérstakt tímabil íslenskrar og evrópskrar heimspekisögu. Viðhorf hans til hlutverks heimspekingsins og heimspekilegrar ástundunar eru könnuð með hliðsjón af þeim sögulega og menningarlega veruleika sem hann var virkur þátttakandi af. Með rannsókninni er varpað ljósi á merkingu og gildi þeirra heimspekilegu álitamála sem Ágúst glímdi við á sínum tíma og við glímum að mörgu leyti enn við.

Um doktorsefnið
Jakob Guðmundur Rúnarsson er fæddur 15. febrúar 1982 og ólst upp á Þverfelli í Lundarreykjadal. Hann lauk tvöfaldri B.A. gráðu í heimspeki og sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2007 og meistaragráðu í Intellectual History frá háskólanum í Sussex í Englandi árið 2008. Jakob er búsettur í Reykjavík.

Hér er hægt að skoða myndir frá doktorsvörninni.