Skip to main content
21. apríl 2015

Varði doktorsritgerð um fagurfræði og náttúruvernd

Guðbjörg Rannveig Jóhannesdóttir hefur varið doktorsritgerð við Sagnfræði- og heimspekideild Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Ritgerðin ber titilinn: Icelandic Landscapes: Beauty and the Aesthetic in Environmental Decision-Making (Íslenskt landslag: fegurð og fagurfræði í ákvarðanatöku um náttúruvernd og -nýtingu). Doktorsvörnin fór fram í Hátíðasal Aðalbyggingar Háskóla Íslands þann 20. febrúar síðastliðinn.

Andmælendur voru dr. Arto Haapala, prófessor við Háskólann í Helsinki í Finnlandi, og dr. Isis Brook við Writtle School of Design í  Essex í Englandi. Dr. Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki við Sagnfræði- og heimspekideild, var aðalleiðbeinandi Guðbjargar en í doktorsnefnd sátu auk hennar dr. Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði, og dr. Emily Brady, prófessor við Háskólann í Edinborg í Skotlandi.

Ágrip af rannsókn
Verkefnið byggir á rannsókn á fagurfræði íslensks landslags. Markmið rannsóknarinnar er að öðlast dýpri skilning á merkingu landslags og þeirra gilda sem eru tengd við fagurfræðilega upplifun af íslensku landslagi; og að finna leiðir til þess að taka megi tillit til slíkrar merkingar og gilda í ákvarðanatöku um náttúruvernd og -nýtingu. Íslenskt landslag er þekkt fyrir einstaka fegurð sína; rannsóknir hafa sýnt að landslagið er eitt mikilvægasta þjóðartákn Íslendinga og á sterkan þátt í sjálfsmynd þjóðarinnar. Samt sem áður hefur skort tungumál til þess að lýsa fagurfræðilegum upplifunum af íslensku landslagi og þeirri merkingu og gildum sem tengd eru við þær. Til þess að leita leiða til að þróa tungumál sem nær utan um gildi og merkingu fagurfræðilegra upplifana varpar verkefnið í fyrsta lagi ljósi á landslagshugtakið, fegurðarhugtakið og fagurfræði út frá sjónarhorni fyrirbærafræðinnar. Þessi fyrirbærafræðilega nálgun býður upp á möguleikann á því að komast handan þess þrönga skilnings er byggir á tvíhyggju sem hefur einkennt hefðbundnar túlkanir á þessum hugtökum. Það er þessi tvíhyggja sem hefur leitt til þess að fagurfræðileg gildi hafa verið hundsuð í ákvarðanatöku á þeim forsendum að þau séu of huglæg og þess vegna illmælanleg. Í öðru lagi er í verkefninu leitast við að varpa ljósi á raunverulegar fagurfræðilegar upplifanir af tveimur íslenskum landslagsgerðum (jöklum og háhitasvæðum) með því að nota fyrirbærafræðilegar og eigindlegar rannsóknaraðferðir, og að greina heimspekilega þá merkingu og gildi sem leiða má af þessum upplifunum. Skilningur okkar á merkingu og gildi landslags hefur bein áhrif á þær aðferðir og nálganir sem notast er við til þess að meta landslag þegar kemur að ákvarðanatöku, og því fjallar síðasti hluti verkefnisins um það hvernig sá skilningur á landslagi, fegurð og hinu fagurfræðilega sem rannsóknin byggir á getur komið að gagni í nálgunum er varða landslagsmál í ákvarðanatöku.

Um doktorsefnið
Guðbjörg Rannveig Jóhannesdóttir er fædd 2. janúar 1980 og ólst upp í sveitarfélaginu Garði á Suðurnesjum. Hún lauk B.A. gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands árið 2003 og meistaragráðu í umhverfisheimspeki frá Lancaster-háskóla í Englandi árið 2006. Frá árinu 2006 hefur hún starfað sem stundakennari við Háskóla Íslands samhliða doktorsnáminu og frá árinu 2013 hefur hún einnig starfað sem stundakennari við Listaháskóla Íslands. Sambýlismaður Guðbjargar er Sævar Sigurjónsson flugvirki.

Hægt er að skoða myndir frá athöfninni með því að smella hér.