Skip to main content
25. nóvember 2015

Varði doktorsritgerð um eddukvæðið Vafþrúðnismál

""

Andrew McGillivray hefur varið doktorsritgerð við Íslensku- og menningardeild sem hann nefnir Preparing for the End: A Narrative Study of Vafþrúðnismál. Vörnin fór fram mánudaginn 23. nóvember í Hátíðasal Háskóla Íslands.

Andmælendur voru Gísli Sigurðsson, rannsóknaprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í Reykjavík, og Tim William Machan, prófessor við University of Notre Dame. Aðalleiðbeinandi Andrews var Ármann Jakobsson, prófessor í íslenskum bókmenntum, en í doktorsnefnd voru auk hans Gunnar Harðarson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild, og Annette Lassen, dósent við Nordisk Forskningsinstitut við Kaupmannahafnarháskóla.

Um efni ritgerðarinnar

Í ritgerðinni er fengist við eddukvæðið Vafþrúðnismál út frá sjónarhorni sem höfundur sækir meðal annars til Paul Ricoeur, Aron Gurevich og Mircea Eliade. Markmiðið er að nálgast ljóðið með nákvæmum lestri þar sem ekki er aðeins fengist við frásagnaraðferð þess heldur einnig það menningarlega umhverfi sem kvæðið er sprottið úr, þ.e. Ísland á miðöldum. Hinn fræðilegi rammi leggur til svið þar sem túlkun á ljóðinu á sér stað, í anda nýrýni en einnig með hliðsjón af ýmsum öðrum miðaldatextum.

Vafþrúðnismál er varðveitt í Konungsbók eddukvæða (GKS 2365 4to; R) sem nú er í Reykjavík. Handritið var sett saman á Íslandi á 13. öld. Nokkuð hefur verið fjallað um Vafþrúðnismál og hér er fengist við þessar fyrri rannsóknir í rækilegustu skoðun á kvæðinu til þessa. Tilgátan er að Vafþrúðnismál sé í senn birtingarmynd goðsögu og listrænn rammi sem nýtist skáldinu til að varðveita og miðla goðsagnaefni. Þannig er sögusviðið og goðsagan sem þar birtist um leið aðferð kvæðisins til að flytja eldri goðsagnafróðleik. Rannsóknin snýst mjög um þann goðsagnafróðleik og sess hans í öðrum íslenskum miðaldatextum er ræddur eftir þörfum.

Auk formlegrar greiningar á kvæðinu gerir höfundur rækilega grein fyrir varðveislu kvæðisins og þeim textum sem Vafþrúðnismál hefur orðið samferða frá miðöldum til nútímans. Einnig er rætt um útgáfusögu kvæðisins, helstu rannsóknir og fræðilegan ramma sem greining kvæðisins er reist á. Að lokum eru dregnir saman ýmsir þræðir, settar fram niðurstöður og bent á framtíðartúlkunarmöguleika fyrir kvæðið sjálft, hugvísindin yfirleitt og íslenskt miðaldaefni sérstaklega.

Um doktorsefnið

Andrew McGillivray er fæddur 2. mars 1983. Hann hefur lokið BA-prófi í ensku og MA-prófi í íslensku frá University of Manitoba. Hann er nú kennari í Department of Rhetoric, Writing, and Communications við University of Winnipeg og í Department of Icelandic Language and Literature við University of Manitoba.

Andrew McGillivray með andmælendum, þeim Tim William Machan og Gísla Sigurðssyni.
Andrew McGillivray með andmælendum, þeim Tim William Machan og Gísla Sigurðssyni.