Skip to main content
4. maí 2015

Varði doktorsritgerð um Birting og íslenskan módernisma

Þröstur Helgason hefur varið doktorsritgerð í almennri bókmenntafræði við íslensku- og menningardeild. Ritgerðin nefnist Tímaritið Birtingur og íslenskur módernismi. Lítil tímarit, landfræði, menningarsaga. Doktorsvörnin fór fram fimmtudaginn 30. apríl í Hátíðasal í Aðalbyggingu.

Andmælendur voru Birna Bjarnadóttir, dósent við Manitoba-háskóla, og Ólafur Rastrick, lektor við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands. Aðalleiðbeinandi Þrastar var Ástráður Eysteinsson, prófessor í almennri bókmenntafræði og forseti Hugvísindasviðs, en í doktorsnefnd voru auk hans Bergljót Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum, og Guðni Elísson, prófessor í almennri bókmenntafræði. Sveinn Yngvi Egilsson, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnaði athöfninni.

Um efni ritgerðarinnar

Meginmarkmið ritgerðarinnnar er að kanna þátt Birtings í tilurð og þróun íslensks módernisma. Ritið var opið rými til leiks og tilrauna með hefðir jafnt sem nýjar stefnur í bókmenntum og listum. Þetta opna rými var að mörgu leyti mikilvægt fyrir íslenskan módernisma. Það var ekki aðeins staður fyrir tilraunir og nýjungar heldur einnig umræðu um þær. Í henni eru oft dregnar upp skýrar línur um átök andstæðna á borð við gamalt og nýtt, innlent og erlent, hámenningu og lágmenningu, raunsæi (realisma) og módernisma – og fleira mætti nefna. Umræðurnar leiða sömuleiðis í ljós hvernig Birtingsmenn stilla andstæðingum tímaritsins og stefn­unnar, sem það boðar, upp sem eins konar staðsetningarpunktum í menningar­lands­laginu, rétt eins og gert væri í herfræðilegum tilgangi. Og það er einmitt út frá þessum skýru átakalínum sem saga módernismans hefur yfirleitt verið skrifuð. Sé aftur á móti rýnt í heimildir kemur í ljós að sagan er að mörgu leyti mun flóknari og þversagna­kenndari en oft hefur verið látið í veðri vaka.

Um doktorsefnið

Þröstur Helgason er fæddur árið 1967. Þröstur hefur lokið BA- og MA-prófi í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands. Hann var gestanemandi við List- og menningarfræðideild Kaupmannahafnarháskóla í eitt ár á meðan hann vann að doktorsritgerð sinni. Hann hefur verið stundakennari við Háskóla Íslands, sinnt ritstjórn, meðal annars á Lesbók Morgunblaðsins, og er nú dagskrárstjóri Rásar 1. Þröstur er kvæntur Hrönn Marinósdóttur og eiga þau þrjár dætur.