Skip to main content
22. janúar 2015

Varði doktorsritgerð um beygingarþróun í íslensku

""

Katrín Axelsdóttir hefur varið doktorsritgerð sína, Sögur af orðum. Sex athuganir á beygingarþróun í íslensku, við Íslensku- og menningardeild. Andmælendur voru dr. Veturliði Óskarsson, prófessor í norrænum málum við Uppsalaháskóla, og dr. Guðrún Þórhallsdóttir, dósent í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. Dr. Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor og forseti Íslensku- og menningardeildar, stýrði athöfninni sem fór fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands.

Um efni ritgerðarinnar

Beygingakerfi íslensku að fornu og nýju er í megindráttum hið sama. Ýmsar breytingar hafa þó orðið, sumar eru smávægilegar en aðrar veigameiri. Í ritgerð Katrínar er fjallað um þróun nokkurra fallorða sem eiga það sameiginlegt að beygingin hefur breyst mikið frá elsta skeiði. Athugunarefnin eru sex: 1) óákveðna fornafnið hvorgi, hvorugur, 2) ábendingarfornafnið sjá, þessi, 3) óákveðna fornafnið ein(n)hver(r), 4) óákveðnu fornöfnin hvortveggi og hvor tveggja, 5) eignarfornöfnin okkar(r), ykkar(r) og yð(v)ar(r) og 6) lýsingarorðið eigin(n). Safnað var allmiklum efniviði allt frá tíma elstu ritheimilda og á þeim grundvelli er reynt að rekja beygingarþróunina og skýra. Rannsóknarspurningarnar hverju sinni snúa annars vegar að því hvað gerðist, og þá um leið hvenær, og hins vegar að skýringum á þróuninni.

Í eftirmála ritgerðarinnar eru ýmsir þættir úr sögunum sex teknir saman. Þar er athygli beint að því sem er líkt (og um leið því sem er ólíkt) í beygingarþróun orðanna. Fjallað er um atriði eins og gerðir áhrifsbreytinga, stefnu breytinga, hugsanleg erlend áhrif, tíma, tíðni og mállýskumun.

Um doktorsefnið

Katrín Axelsdóttir er fædd 31. ágúst 1968. Hún lauk BA-prófi í almennum málvísindum og íslensku frá Háskóla Íslands árið 1991 og MA-prófi í íslenskri málfræði frá sama skóla 2001. Hún hefur um árabil kennt íslensku sem annað mál við Háskóla Íslands.

""
""