Skip to main content
8. júní 2016

Varði doktorsritgerð um áhrif landnáms á skóglendi

""

Nikola Trbojevic hefur varið doktorsritgerð sína, Áhrif landnáms á skóglendi Íslands á víkingaöld, við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Svavar Hrafn Svavarsson, forseti deildarinnar, stjórnaði athöfninni sem fram fór í Hátíðasal Háskóla Íslands 6. júní síðastliðinn.

Andmælendur voru John Wainwright, prófessor við landfræðideild Háskólans í Durham, og dr. Kristín Svavarsdóttir, plöntuvistfræðingur hjá Landgræðslu ríkisins. Aðalleiðbeinandi Nikola var Orri Vésteinsson, prófessor í fornleifafræði, en í doktorsnefnd voru auk hans dr. Hans Skov-Petersen, seniorforsker, Institut for geovidenskab og naturforvaltning, Kaupmannahafnarháskóla, og dr. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri.

Um efni ritgerðarinnar

Landnám Íslands seint á 9. öld og í byrjun 10. aldar hafði í för með sér stórfellda skógareyðingu með víðtæk og langvarandi áhrif á viðkvæma náttúru landsins. Skógareyðing landnámsaldar hefur verið rannsökuð í meira en öld en ekki hefur verið skýrt hvernig skógareyðingin átti sér stað né hvað olli henni. Stærð skóglendis fyrir landnám er ekki þekkt og óljóst er hvort skógareyðingin var óhjákvæmileg aukaverkun landnáms manna og dýra, hvort hún var afleiðing af meðvitaðri stefnu eða ofnýtingu.

Markmið ritgerðarinnar er að varpa ljósi á þetta mál. Lagt er mat á stærð skóglendisins fyrir landnám og sýnt fram á að þörf landnámsmanna fyrir eldsneyti og byggingarefni ein og sér, jafnvel ef mjög rúmt er áætlað, hefði ekki getað haft þessi miklu neikvæðu áhrif á skóglendið. Skógarhögg í þeim tilgangi að rýma fyrir túnum og skapa víðfeðm beitilönd var ástæða hinnar stórfelldu skógareyðingar. Til að rannsaka framgang skógareyðingarinnar eru skilgreindar fjórar sviðsmyndir sem byggja á mismunandi forsendum með tilliti til tiltæks mannafla og félagslegra tengsla. Til að kanna sviðsmyndirnar eru „agent-based“ tölvulíkön keyrð fyrir þrjú rannsóknarsvæði: Vestur-Eyjafjallahrepp, Mývatn og Borgarfjörð. Niðurstöður tölvulíkananna sýndu að skógareyðingin var afleiðing vísvitandi stefnu sem hafði það að markmiði að stofna og þróa samfélag byggt á búfjárrækt. Þessari stefnu var hins vegar framfylgt án fulls skilnings á þolmörkum umhverfisins á hverjum stað. Mjög fljótlega fór að bera á hnignun landgæða á hinum nýju beitilöndum og afrakstur þeirra minnkaði. Þessi hnignun orsakaðist af ofbeit, útbreiðslu beitarþolins gróðurs og einnig, þó í minna mæli, af endurvexti skóga. Upphaflegt umfang af ruddum svæðum reyndist ekki nægjanlegt og því varð víða nauðsynlegt að hefja aftur skógarruðning fyrir nýju beitilandi. Niðurstöður tölvulíkananna gefa einnig til kynna að skógareyðingin hafi hvorki verið eins stórfelld né eins hröð og oft hefur verið haldið fram. Þó svo að skógareyðingin hafi að stærstum hluta átt sér stað fyrir lok 9. aldar, náði heildarferlið yfir mun lengra tímabil sem stóð yfir alla 10. öldina og hélt að öllum líkindum áfram löngu eftir landnám.

Um doktorsefnið

Nikola Trbojevic er fæddur árið 1977. Hann hefur lokið BA-prófi í fornleifafræði við Háskólann í Belgrad og MA-prófi í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Nikola er sérfræðingur á Fornleifastofnun Íslands. Hann er kvæntur Huldu Sif Birgisdóttur og eiga þau Silju Björt, eins árs.

Nikola Trbojevic og Svavar Hrafn Svavarsson, forseti Sagnfræði- og heimspekideildar, ganga til doktorsvarnar.
Nikola Trbojevic og Svavar Hrafn Svavarsson, forseti Sagnfræði- og heimspekideildar, ganga til doktorsvarnar.