Skip to main content
13. október 2016

Vann með Nóbelsverðlaunahafa að bók um efnahagskreppu

Bengt Holmström, prófessor í Tækniháskólanum í Massachusetts (MIT), hlýtur Nóbelsverðlaunin í hagfræði í ár ásamt Englendingnum Oliver Hart, prófessor í Harvard-háskóla. Þeir hljóta verðlaunin fyrir framlög sín til samningafræða. Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, gaf fyrir nokkrum árum út bók ásamt Holmström og öðrum norrænum starfsbræðrum um áhrif efnahagskreppunnar 2008 á norrænu ríkin. 

Rannsóknir Nóbelsverðlaunahafanna Holmströms og Harts varpa m.a. ljósi á launasamninga forstjóra stórfyrirtækja og útvistun almannaþjónustu, svo sem sorphirðu og fangavistunar. Holmström er fyrsti Finninn sem fær Nóbelsverðlaun í hagfræði en áður hafa þrír Norðmenn fengið verðlaunin og tveir Svíar. 

Holmström er ásamt Þorvaldi Gylfasyni, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, og þrem öðrum norrænum hagfræðingum höfundur bókarinnar Nordics in Global Crisis sem kom út árið 2010. Í bókinni er fjallað um áhrif alþjóðlegu efnahagskreppunnar 2008 á lítil og opin efnahagskerfi en sérstök áhersla er á greiningu á því hvers vegna norrænu ríkin urðu harkalega fyrir barðinu á kreppunni. Höfundar bókarinnar benda enn fremur á leiðir í stefnumörkun sem norræn stjórnvöld ættu að hafa í huga til þess að styrkja fjármálakerfi sín gagnvart hræringum og skjálftum í hinum alþjóðlega efnahagsbúskap.

Þorvaldur Gylfason og bókakáp
Þorvaldur Gylfason og bókakáp