Skip to main content
26. október 2016

Uppruni hringbrauta í borgarskipulagi

""

Nýverið varði Astrid Lelarge doktorsritgerð við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands og Université Libre í Brussel (ULB). Vörnin fór fram við ULB Brussel, en um er að ræða sameiginlega gráðu háskólanna tveggja.

Ritgerð Astridar heitir La diffusion des projets de voies de circulation concentriques. Les multiples versions d’une forme urbaine générique à Bruxelles, Genève et Reykjavík (1781–1935) og fjallar um uppruna hringbrauta í skipulagi evrópskra borga. Slíkar brautir verða til eftir að varnarmúrar misstu hlutverk sitt á 17. og 18. öld og var breytt fyrst í göngustíga og síðan í breiðstræti. Þetta á við um skipulag Brussel og Genfar, en í báðum þessum borgum eru hringbrautir lagðar þar sem áður höfðu verið borgarmúrar. Í Reykjavík höfðu aftur á móti aldrei verið neinir múrar, en frumkvöðlar í skipulagi bæjarins, og þá einkum verkfræðingurinn Knud Zimsen, vildu fylgja evrópskri tísku með því að afmarka borgina með hringbraut.

Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði og forseti Hugvísindasviðs, var leiðbeinandi Astridar í doktorsnáminu ásamt Christophe Loir, prófessor í sagnfræði við ULB. Anna Agnarsdóttir prófessor var einn andmælenda við doktorsvörnina, en auk hennar dæmdu Bertrand Lévy, prófessor í landafræði við Háskólann í Genf, og Judith Le Maire, prófessor í arkitektúr við ULB, ritgerðina.

Astrid Lelarge ásamt leiðbeinendum og andmælendum.
Astrid Lelarge ásamt leiðbeinendum og andmælendum.