Skip to main content
28. mars 2017

Ungt fólk tekst á við tilveruna í nýrri bók

""

„Í bók þessari er fjallað um íslenskar rannsóknir á heilsu og velferð ungs fólks og gerður samanburður við önnur lönd. Ljósi er varpað á ýmiss krefjandi viðfangsefni og áskoranir, sem ungt fólk stendur frammi fyrir. Togað er í ungt fólk úr mörgum áttum. Andstæð skilaboð geta komið frá samfélaginu annars vegar og foreldrum hins vegar og valdið togstreitu. Ungt fólk þarf ást, umhyggju og góða leiðsögn til að takast á við tilveruna en hún reynist oft flókin. Bókin svarar ótal spurningum um líf og heilsu ungs fólks og leggur til leiðir til að bæta líf þess.“

Þetta segir Sóley S. Bender, prófessor í hjúkrunarfræði, um nýútkomna bók sem ber heitið UNGT FÓLK – Tekist á við tilveruna, en í henni er fjallað um heilsu og velferð ungs fólks.

Sóley, Sigrún Aðalbjarnardóttur, prófessor á Menntavísindasviði, og Guðrúnu Kristjánsdóttur, prófessor í barnahjúkrun við Hjúkrunarfræðideild, ritstýra bókinni en þær starfa allar við Háskóla Íslands.  

Fram kemur í máli ritstjóranna þriggja að í bókinni sé gerð grein fyrir ýmsum vandamálum og verkefnum sem ungt fólk standi frammi fyrir en sjónum sé einkum beint að því að koma í veg fyrir vandamálin og stuðla að farsæld. Að þeirra sögn er fjallað um líkamlega, andlega og félagslega heilsu og velferð unglinga í bókinni.

„Rannsóknirnar sem fjallað er um í bókinni beinast að þáttum eins og hreyfingu, næringu, geðheilbrigði, kynheilbrigði og tannheilsu. Að auki er fjallað um heilbrigðisvandamál svo sem verki, þunglyndi og kvíða. Þá er einnig gerð grein fyrir sálfélagslegum og uppeldis- og menntunarfræðilegum þáttum eins og sjálfsmynd unglinga, sjálfstjórnun, námsgengi, einelti á veraldarvefnum og hvernig ungmenni höndla rafræn samskipti og takast á við andstreymi með seiglu. Jafnframt er umfjöllun um borgaralega þátttöku þeirra, vinnumarkaðsúrræði og samskipti við vini og foreldra sem skipta máli í félagslegu umhverfi þeirra,“ segir Sigrún Aðalbjarnardóttir.

Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi bókarinnar inn í umræðuna enda er þarna tekið á fjölda þátta sem glímt er við í barnafjölskyldum.  „Full þörf er á bók sem þessari í íslensku samfélagi þar sem fjallað er um ungt fólk og tekið á víðtækan hátt á viðfangsefnum og vandamálum þess. Bókin leiðir saman fræðimenn á Íslandi á sviði unglingarannsókna sem miðla nýjustu þekkingu um heilsufar og velferð,“ segir Guðrún Kristjánsdóttir.

Að ritstjóranna sögn eru langflestir greinahöfundar í bókinni starfandi fræðimenn og kennarar við Háskóla Íslands og sumir þeirra hafi sinnt rannsóknum og kennslu um unglinga um langt skeið.

Útgefandi bókarinnar er Hið íslenska bókmenntafélag og fæst hún meðal annars í Bóksölu stúdenta. 

Sigrún Aðalbjarnardóttir, Sóley Bender og Guðrún Kristjánsdóttir
Kápa bókarinnar UNGT FÓLK – Tekist á við tilveruna