Skip to main content
26. júní 2015

Unglingar af erlendum uppruna í Háskóla unga fólksins

Tæplega 20 nemendur af erlendum uppruna sóttu nýafstaðinn Háskóla unga fólksins sem fram fór í Háskóla Íslands. Það var Nýherji sem styrkti hópinn til náms en fyrirtækið hefur átt afar gott samstarf  við Háskóla Íslands á undanförnum árum.

Alls sóttu um 350 nemendur Háskóla unga fólksins á dagana 10.-13. júní og lífguðu þeir svo sannarlega upp á háskólasvæðið. Alls stóðu nemendunum til boða á fimmta tug námskeiða og þemadaga.

Háskóli Íslands hefur það á stefnuskrá sinni að kynna innflytjendum kosti til náms við skólann og auka aðsókn þeirra að námi enda bjóðast innflytjendum oft færri tækifæri til starfs og náms en öðrum í samfélaginu. Með það í huga tók Háskóli Íslands höndum saman við Nýherja í annað sinn og bauð 20 nemendum af erlendum uppruna að taka þátt í Háskóla unga fólksins sér að kostnaðarlausu.  Ábendingar um nemendur bárust frá fulltrúum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en þeir voru allir tvítyngdir en skilja vel íslensku og hafa staðið sig vel í námi. Óhætt er að segja að þeir átján nemendur sem þáðu styrkinn að þessu sinni hafi verið afar námsfúsir og drukkið í sig fróðleik á þeim fjölbreyttu námskeiðum sem þau sóttu.

Háskóli Íslands hefur átt afar gott samstarf við Nýherja í tengslum við fjölmörg verkefni, þar á meðal Háskóli unga fólksins.  Nýherji hefur menntun og nýsköpun sem lykilorð í áherslum sínum í samfélagsmálum en megináhersla Nýherja á þessum vettvangi er einmitt stuðningur við ungt námsfólk. Nýherji hefur einnig starfað með Háskóla Íslands að First LEGO tækni- og hönnunarkeppninni, sem ætluð er 10-15 ára grunnskólanemum, og einnig stutt dyggilega við árlega Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema við Háskóla Íslands.

Hluti hópsins sem hlaut styrk frá Nýherja til náms í Háskóla unga fólksins.
Hluti hópsins sem hlaut styrk frá Nýherja til náms í Háskóla unga fólksins.