Skip to main content
15. september 2016

Umfangsmikið gagnasafn um starfshætti í skólum opnað

Umfangsmikið gagnasafn um starfshætti í skólum opnað - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Það krefst tíma og orku að safna rannsóknargögnum og það verður æ efiðara, einkum fyrir háskólanema, að fá aðgang að skólum til að safna gögnum. Með því að ganga að tilbúnum gögnum í stað þess að afla þeirra gefst meiri tími í rannsóknirnar sjálfar, sem gæti orðið til þess að fjölga rannsóknum og birtingum. Gagnasafnið gefur líka aukin tækifæri til langtímarannsókna sem sáralítið er af á sviði menntavísinda,“ segir Gerður G. Óskarsdóttir, fyrrverandi verkefnastjóri rannsóknarinnar Starfshættir í grunnskólum en umfangsmikið gagnasafn úr þeirri rannsókn var opnað síðasta föstudag í Háskóla Íslands að viðstöddu fjölmenni. Fram til þessa hafa íslenskir fræðimenn og háskólanemar í menntavísindum ekki haft aðgang að sambærilegu gagnasafni.

Býður upp á ótal möguleika

Gagnasafnið inniheldur m.a. vettvangslýsingar, viðtöl og svör við spurningakönnunum. „Tækin sem notuð voru, s.s. vettvangsform, viðtalsrammar við nemendur, kennara og stjórnendur skólanna og spurningalistar, sem lagðir voru fyrir nemendur, foreldra og starfsmenn skóla, má einnig nýta. Þótt unnið hafi verið úr þessum gögnum og efni birt, má vinna miklu meira úr þeim. Þetta á ekki síst við um vettvangslýsingarnar sem einna minnst hefur verið unnið úr,“ bendir Gerður á en safnið býður upp á ótal möguleika til úrvinnslu.

„Áhugavert getur verið fyrir fræðafólk að vinna nánar úr gögnunum út frá mismunandi sjónarhornum. Þar má nefna kennsluhætti í einstökum námsgreinum eða árgögnum grunnskóla. Einnig má nefna samskipti nemenda og kennara, hegðun nemenda, stjórnun kennara, frumkvæði nemenda og áhrif þeirra á framvindu námsins. Auk þess má nefna fyrirkomulag nestistíma, upphaf og lok kennslustunda, tímanýtingu, samkennslu, hlut stuðningsfulltrúa, margbreytileika nemenda og áherslu kennara á að fjalla um markmið eða tilgang einstakra námsþátta. Taka mætti sum ofannefndra viðfangsefna fyrir á ákveðnum stigum grunnskólans, þ.e. yngri barna stigi, miðstigi eða unglingastigi. Jafnframt gefa gögnin möguleika á langtímarannsóknum og samanburðarrannsóknum,“ bætir hún við.

„Ef safnið verður vel nýtt tel ég víst að það geti stuðlað að eflingu menntarannsókna hér á landi,“ segir Gerður að endingu og vonar að kennarar á Menntavísindasviði sjái hag sinn og nemenda sinna í því að nýta gögnin, annaðhvort sem megingögn í einstökum rannsóknum eða sem viðbót við gögn sem aflað er auk þess sem þau gefa tilefni til samanburðarrannsókna.

Um rannsóknina

Gögnin eru úr rannsókninni Starfshættir í grunnskólum sem nú eru í umsjá Menntavísindastofnunar. Þeim var safnað á árunum 2009-2011 í tuttugu grunnskólum víðs vegar um landið með yfirgripsmiklum spurningakönnunum til nemenda, foreldra og starfsmanna, vettvangsathugunum í yfir fimm hundruð kennslustundum og á annað hundrað viðtölum við stjórnendur, kennara og nemendur. Meginniðurstöður voru kynntar í bókinni Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar, sem gefin var út árið 2014.

Myndir frá opnuninni

umfangsmikið gagnasafn úr þeirri rannsókn var opnað síðasta föstudag í Háskóla Íslands að viðstöddu fjölmenni.