Skip to main content
12. nóvember 2015

Tuttugu lið taka þátt í LEGO-hönnunarkeppni um helgina

Tuttugu lið grunnskólanema taka þátt í Lego-hönnunarkeppni FLL í Háskólabíói á laugardag

Von er á hátt í 200 grunnskólanemendum á aldrinum 10-16 ára til þátttöku í tækni- og hönnunarkeppni grunnskólanemenda, FIRST LEGO League (FLL), sem haldin verður laugardaginn 14. nóvember  í Háskólabíói. Þetta er í ellefta  sinn sem keppnin er haldin hér á landi.

Markmiðið með keppninni er að vekja áhuga hjá ungu fólki á því að skara fram úr á sviði tækni og vísinda. Boðið er upp á spennandi verkefni sem efla færni í vísindum, verkfræði og tækni, örva nýsköpun og byggja um leið upp hæfileika eins og sjálfstraust og samskipta- og forystuhæfni. Keppnin hefur tiltekið þema á ári hverju og að þessu sinni er það sorp.

Keppninni er skipt í fjóra hluta. Meðal verkefna keppenda er að forrita vélmenni úr tölvustýrðu LEGO-i til að leysa tiltekna þraut sem tengist þema keppninnar. Þá eiga keppendur að gera vísindalega rannsókn á ákveðnu efni sem einnig er tengt þemanu. Enn fremur þurfa þau að gera grein fyrir því hvernig þau forrituðu vélmennið sitt og þá horfir dómnefnd einnig til liðsheildar. 

Sigurvegari á kost á að taka þátt í alþjóðlegri keppni FIRST LEGO League

Tuttugu lið víðs vegar af landinu hafa skráð sig til leiks og er óhætt að segja að áhugi grunnskólanema á keppninni hafi vaxið hratt síðustu ár. Til samanburðar voru keppnisliðin tíu árið 2013. Allt að 10 manns eru í hverju liði ásamt leiðbeinanda og fengu öll lið senda þrautabraut ásamt upplýsingum um rannsóknarverkefni nú í haust. 

Dagskrá keppninnar hefst kl. 9 á laugardagsmorgun í Háskólabíói og reiknað er með að sigurvegarar verði krýndir um klukkan 15.30. Það lið sem ber sigur úr býtum á kost á að taka þátt í alþjóðlegri keppni FIRST LEGO League.  Auk verðlauna fyrir sigur í keppninni eru m.a. veitt verðlaun fyrir bestu lausn í hönnun og forritun á vélmenni, besta rannsóknarverkefnið og bestu liðsheild. 

Allir eru boðnir velkomnir að fylgjast með spennandi og skemmtilegri keppni í Háskólabíói en auk hennar verður margt markvert í boði í bíóinu þennan dag. Krumma mun sýna Mindstorms-vélmenni, Sprengju-Kata verður með efnafræðitilraunir, Vísindasmiðja Háskóla Íslands verður opin upp á gátt með sýnum skemmtilegu tækjum og tólum og þá verður rafknúinn kappakstursbíll Team Spark til sýnis. Auk þess mun Sorpa verða með kynningarbás og almenningi gefst kostur spreyta sig á vindmyllusmíð.  

Háskóli Íslands heldur utan um keppnina en helsti bakhjarl hennar er Nýherji.

Upplýsingar um keppnina má nálgast á heimasíðu hennar og Facebook-síðu keppninnar

Þátttakendur í LEGO-hönnunarkeppninni fyrr á þessu ári.
Þátttakendur í LEGO-hönnunarkeppninni fyrr á þessu ári.