Skip to main content
6. febrúar 2017

TSrobotix sigraði í Hönnunarkeppni verkfræðinema

""

Liðið TSrobotix bar sigur úr býtum í árlegri Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema við Háskóla Íslands sem fór fram í tengslum við UTmessuna í Hörpu laugardaginn 4. febrúar.

Keppnin hefur fyrir löngu unnið sér fastan sess, bæði innan Háskólans og ekki síður í sjónvarpi allra landsmanna, RÚV, en þáttur frá keppninni hefur verið sýndur þar á hverju ári. Keppnin gengur út á að búa til farartæki sem getur ferðast yfir tiltekna braut og leyst á leiðinni ýmsar þrautir. Það reynir því sannarlega á hugvit þátttakenda en tækið fær stig fyrir hverja leysta þraut og vinnur það lið sem flest stig hlýtur.

Að þessu sinni þurfti tækið að aka frá byrjunarreit, ýta á takka vinstra megin á brautinni og fanga þar um 200 ml af vatni úr röri fyrir ofan tækið. Eftir það þurfti tækið að fara yfir skurð og í framhaldinu að losa vatnið í trekt yfir mæliglasi hægra megin á brautinni. Því næst þurfti tækið að keyra yfir hraun sem samanstóð bæði af fínum sandi og stærri hnullungum og lauk brautinni á því að tækið þurfti að fara upp net og staðnæmast upp á palli.

Sex lið reyndu sig við brautina frammi fyrir þéttsettnum sal í Silfurbergi í Hörpu en þegar upp var staðið reyndist liðið TSrobotix sigurvegari enda komst tæki liðsins örugglega yfir brautina alla. Liðið skipuðu þeir Kristján Örn Aðalbjörnsson, nemi í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands, Ingi Valur Grétarsson og Sverrir Jónsson og hlutu þeir 400 þúsund krónur í verðlaun frá aðalbakhjörlum keppninnar, Marel og Nýherja. Liðið fékk jafnframt 100 þúsund krónur í verðlaun fyrir frumlegasta hönnun tækis.

Í öðru sæti varð liðið VisioBot sem skipað er þeim Andra Þorlákssyni, nema í rafmagns- og tölvuverkfræði, og Þóri Sævari Kristinssyni, nema í mekatróník tæknifræði sem fram fer á vettvangi Keilis, en hvort tveggja er námsleið við Háskóla Íslands. Þeir hlutu 300 þúsund krónur í verðlaun frá bakhjörlum keppninnar. 

Team G-bog hafnaði í þriðja sæti en liðið skipa þeir Kristófer Smári Leifsson og Óðinn Snær Guðmundsson, nemendur í mekatróník hátæknifræði við Keili og Háskóla Íslands, og Róbert Kraciuk. Þeir hlutu 200 þúsund krónur í verðlaunafé.

Líkt og fyrri ár verður sjónvarpsþáttur um keppnina sýndur á RÚV á vordögum.

""
""
Kristján Örn Aðalbjörnsson og Sverrir Jónsson úr sigurliðinu TSrobotix ánægðir með afrakstur dagsins. Með þeim í liði var Ingi Valur Grétarsson.
Kristján og Sverrir fylgjast með tækinu sínu fara örugglega yfir brautina erfiðu.