Skip to main content
25. apríl 2016

Tölfræðiráðgjöf við Heilbrigðisvísindasvið stofnuð

""

Heilbrigðisvísindasviðs hefur komið á fót tölfræðiráðgjöf sem er hluti af rannsóknaþjónustu sviðsins og stendur akademísku starfsfólki og framhaldsnemendum sem stunda rannsóknir við sviðið til boða.

Tölfræðiráðgjöfin hefur aðsetur í Læknagarði. Hægt er að panta tíma og fá ráðgjöf um tölfræðivinnu í rannsóknum en jafnframt að setja inn stuttar spurningar á Facebook-síðu tölfræðiráðgjafarinnar og fá þar skrifleg svör.  

Fólkið á bak við tölfræðiráðgjöfina er Thor Aspelund, prófessor í tölfræði við Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Jóhanna Jakobsdóttir, doktor í tölfræði, og Ragnhildur G. Finnbjörnsdóttir doktorsnemi auk ýmissa annarra tölfræðinga og fræðimanna í Háskóla Íslands sem haft hefur verið samráð við.

Að sögn Ingu Þórsdóttur, forseta Heilbrigðisvísindasviðs, kemur hugmyndin að sérstakri tölfræðiráðgjöf í raun frá vísindafólki við sviðið. „Við fundum að þetta er það sem fólkið okkar þarf og finnst vanta. Tölfræðiráðgjöf fyrir heilbrigðisgreinar fyrirfinnst í flestum rannsóknaháskólum erlendis og við viljum hafa þessa þjónustu.“ Markmiðið með tölfræðiráðgjöfinni er að efla rannsóknir við Heilbrigðisvísindasvið og gera þær vandaðri. „Slíkt mun skila sér út í samfélagið,“ segir Inga. 

Frá árinu 2013 hefur einnig verið starfandi rannsóknastjóri við Heilbrigðisvísindasvið en eitt af hlutverkum hans er að fylgjast með tækifærum í sókn í samkeppnissjóði fyrir vísindafólk við sviðið og aðstoða það við að afla styrkja. 

Eins og fyrr segir hefur tölfræðiráðgjöf Heilbrigðisvísindasviðs aðsetur í Læknagarði, á 3. hæð í stofu 331. Nánari upplýsingar um tölfræðiráðgjöfina og tímapantanir á síðu Heilbrigðisvísindasviðs í Uglu. 

Nemendur á Háskólatorgi
Nemendur á Háskólatorgi