Skip to main content
15. október 2016

Tíu milljónir til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini

""

Styrktarfélagið Göngum saman hefur veitt 10 milljónir króna í rannsóknarstyrki til vísindamanna og nemenda við Háskóla Íslands sem nýtast munu við grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini.

Úthlutun styrkjanna fór fram miðvikudaginn 12. október síðastliðinn en með þessari styrkveitingu hefur Göngum saman úthlutað alls rúmum 70 milljónum króna til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini frá stofnun félagsins árið 2007. 

Sex aðilar fengu styrk að þessu sinni: 

Arnar Sigurðsson, meistaranemi í líf- og læknavísindum við Háskóla Íslands, hlaut einnar milljónar króna styrk fyrir verkefnið Hlutverk miðlægra kolefnisefnaskipta í bandvefslíkri umbreytingu stofnfruma í brjóstkirtli.

Elísabet Alexandra Frick, doktorsnemi í líf- og læknavísindum við Háskóla Íslands, hlaut 2,5 milljóna króna styrk fyrir verkefnið Starfsemi miR-190b í brjóstakrabbameinum.

Gunnhildur Ásta Traustadóttir, nýdoktor við Lífvísindasetur Háskóla Íslands, hlaut 1,75 milljónir króna styrk fyrir verkefnið Hlutverk Delta-like 1 homolog (DLK1) í greinóttri formgerð brjóstkirtils og brjóstakrabbameini.

Helga Þráinsdóttir, meistaranemi í líf- og læknavísindum við Háskóla Íslands, hlaut eina milljón króna í styrk fyrir verkefnið Samspil æðaþels og brjóstakrabbameinsfruma.

Laufey Tryggvadóttir, klínískur prófessor við Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár, hlaut tveggja milljóna króna styrk fyrir verkefnið Líffræðilegur munur á brjóstakrabbameinsæxlum BRCA2-arfbera og kvenna án BRCA2-stökkbreytingar.

Ólafur Andri Stefánsson, nýdoktor við Læknadeild Háskóla Íslands, hlaut 1,75 milljónir króna í styrk fyrir verkefnið TP53 (p53) og BRCA1 óvirkjun í tengslum við lyfjasvörun brjóstakrabbameinssjúklinga.

Um Göngum saman

Styrktarsjóður Göngum saman styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini. Styrkveitingin í ár byggist að mestu leyti á frjálsum framlögum einstaklinga sem hafa lagt hafa sitt af mörkum með þátttöku í styrktargöngu félagsins á Mæðradaginn, Reykjavíkurmaraþoninu og kaupum á söluvarningi félagsins. Einnig hafa ýmis félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar lagt Göngum saman lið, en megináhersla er á að öll framlög renni óskipt í styrktarsjóð félagsins. Frá stofnun félagsins hefur ríflega 70 milljónum verið úthlutað til íslenskra rannsakenda á sviði brjóstakrabbameins. 

Nánari upplýsingar um félagið er að finna á www.gongumsaman.is

Frá úthlutun styrkjanna á dögunum. Frá vinstri. Gunnhildur Óskarsdóttir, formaður Göngum saman, Guðrún Valdimarsdóttir fyrir hönd Helgu Þráinsdóttur, Arnar Sigurðsson, Ólafur Andri Stefánsson, Elísabet Alexandra Frick, Gunnhildur Ásta Traustadóttir og Laufey Tryggvadóttir.
Frá úthlutun styrkjanna á dögunum. Frá vinstri. Gunnhildur Óskarsdóttir, formaður Göngum saman, Guðrún Valdimarsdóttir fyrir hönd Helgu Þráinsdóttur, Arnar Sigurðsson, Ólafur Andri Stefánsson, Elísabet Alexandra Frick, Gunnhildur Ásta Traustadóttir og Laufey Tryggvadóttir.