Skip to main content
8. október 2015

Tíu milljónir króna til brjóstakrabbameinsrannsókna

Styrktarfélagið Göngum saman veitti 10 milljónir króna í rannsóknarstyrki til vísindamanna við Háskóla Íslands og Landspítala sem eiga það sameiginlegt að stunda grunnrannsóknirá brjóstakrabbameini. Með þessari styrkveitingu hefur Göngum saman úthlutað alls rúmum 60 milljónum króna til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini frá stofnun félagsins árið 2007.

Styrkjunum var úthlutað miðvikudaginn 7. október. Fimm aðilar fengu styrk að þessu sinni: 

Birna Þorvaldsdóttir, doktorsnemi við Háskóla Íslands, hlaut þriggja milljóna króna styrk fyrir verkefnið Telomerar og brjóstakrabbamein

Edda Sigríður Freysteinsdóttir, náttúrufræðingur á Landspítala, hlaut 1,4 milljóna króna styrk fyrir verkefnið Ættlægt brjóstakrabbamein og möguleg áhættugen

Erika Morera, doktorsnemi við Háskóla Íslands, hlaut einnar milljónar króna í styrk fyrir verkefnið Samanburður á eðlilegri og illkynja bandvefsumbreytingu stofnfruma úr brjóstkirtli. 

Guðrún Valdimarsdóttir, lektor við Læknadeild Háskóla Íslands, hlaut tveggja milljóna króna styrk fyrir verkefnið Þyrnirósarsvefn brjóstaæxlisfruma. 

Katrín Birna Pétursdóttir, meistaranemi við Háskóla Íslands, hlaut 2,6 milljónir króna í styrk fyrir verkefnið Breytingar á genatjáningu í lyfjaónæmum brjóstastofnfrumulínum í tengslum við stofnfrumueiginleika og aldehyde dehydrogenasa virkni (ALDH). 

Um Göngum saman

Styrktarsjóður Göngum saman styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini. Styrkveitingin í ár byggist að mestu leyti á frjálsum framlögum einstaklinga sem hafa lagt hafa sitt af mörkum með þátttöku í styrktargöngu félagsins á Mæðradaginn, Reykjavíkurmaraþoninu og kaupum á söluvarningi félagsins. Einnig hafa ýmis félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar lagt Göngum saman lið en megináhersla er á að öll framlög renni óskipt í styrktarsjóð félagsins. Frá stofnun félagsins hefur ríflega 60 milljónum verið úthlutað til íslenskra rannsóknaraðila sem sinna brjóstakrabbameinsrannsóknum.

Nánari upplýsingar um félagið er að finna á www.gongumsaman.is

Edda Sigríður Freysteinsdóttir, Birna Þorvaldsdóttir, Erika Morera, Katrín Birna Pétursdóttir og Guðrún Valdimarsdóttir
Edda Sigríður Freysteinsdóttir, Birna Þorvaldsdóttir, Erika Morera, Katrín Birna Pétursdóttir og Guðrún Valdimarsdóttir