Skip to main content
4. desember 2015

Tilnefndar til Fjöruverðlauna

Tvær bækur, sem Háskólaútgáfan gaf út nýverið, eru tilnefndar til Fjöruverðlaunananna 2016, bókmenntaverðlauna kvenna, í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis. Þá er bók sem byggist á meistaraverkefni nemanda í ritlist við Háskóla Íslands einnig tilnefnd til verðlaunanna í flokki fagurbókmennta.

Bækurnar tvær sem tilnefndar eru í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis eru Rof - Frásagnir kvenna af fóstureyðingum og Heiður og huggun. Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld. Höfundar fyrrnefndu bókarinnar eru Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, og Steinunn Rögnvaldsdóttir. Bókin hefur að geyma sögur nærri 80 kvenna af reynslu sinni af fóstureyðingum. Fléttað er saman sögum af konum sem vildu ekki rjúfa meðgöngu og öðrum sem þurftu að berjast fyrir því að komast í fóstureyðingu; konum sem upplifðu eftirsjá og öðrum sem fundu fyrir létti. 

Höfundur Heiðurs og huggunar Þórunn Sigurðardóttir. Bókin er byggð á doktorsritgerð sem Þórunn varði við Hugvísindasvið Háskóla Íslands árið 2014. Hún markar tímamót í rannsóknum á íslenskum bókmenntum síðari alda. Í henni er fjallað um bókmenntagreinar sem hafa ekki verið rannsakaðar að neinu marki hér á landi fram að þessu. Einnig eru birtir textar sem aðeins eru varðveittir í handritum og hafa ekki áður verið prentaðir. Árnastofnun og Háskólaútgáfan gefa út í sameiningu.

Nánar um doktorsvörn Þórunnar á hi.is.

Í flokki fagurbókmennta er bókin Mörk eftir Þóru Karítas Árnadóttur meðal tilnefndra en hún er meistaraverkefni Þóru í ritlist við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Um er að ræða skáldsögu sem byggist á sannsögulegum atburðum þar sem kynferðisbrot gegn barni er m.a. til umfjöllunar.

Nánari upplýsingar um bækurnar þrjár og aðrar tilnefningar til Fjöruverðlaunanna má finna á heimasíðu verðlaunanna.

Fjöruverðlaunin verða afhent snemma á næsta ári.

Höfundar þeirra bóka sem tilnefndar eru til Fjöruverðlaunanna.
Höfundar þeirra bóka sem tilnefndar eru til Fjöruverðlaunanna.