Skip to main content
26. maí 2016

Tilnefndar sem framúrskarandi ungir Íslendingar

Elín Edda Sigurðardóttir, kandídatsnemi í læknisfræði, og Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, aðjúnkt við Læknadeild, voru tilnefndar til verðlauna JCI (Junior Chamber Iceland) „Framúrskarandi ungur Íslendingur 2016”. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin og viðurkenningar við formlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu þann 24. maí sl.

Elín Edda og Sandra Mjöll voru í hópi tíu ungra einstaklinga sem tilnefndir voru til verðlaunanna. Þær hlutu tilnefningar í flokknum störf/uppgötvanir á sviði læknisfræði.

Elín Edda er í kandídatsnámi við Læknadeild. BS-verkefni hennar var hluti af rannsókn Sigurðar Yngva Kristinssonar, prófessors við Læknadeild, „Áhrif greiningar góðkynja einstofna mótefnahækkunar á lifun sjúklinga með mergæxli”. Rannsóknin náði til rúmlega 14.000 mergæxlissjúklinga og voru áhrif fyrri vitneskju um forstig mergæxlis, einstofna góðkynja mótefnahækkun (MGUS), á horfur mergæxlissjúklinga metin. Rannóknin hlaut m.a. hvatningarstyrk Vísindasjóðs Landspítala. Á sama tíma og Elín hefur verið í krefjandi læknanámi þá ferðaðist hún um heiminn sem partur af kórnum Graduale Nobili til þess að syngja með Björk Guðmundsdóttir á tónleikum. Elín dvelur nú ásamt fjórum öðrum læknanemum úr Háskóla Íslands í Malaví þar sem þau stunda verknám á þremur heilbrigðisstofnunum.

Sandra Mjöll er lífeindafræðingur frá Læknadeild. Hún starfar nú sem aðjúnkt við HÍ og framkvæmdastjóri Platome Líftækni. Við útskrift hlaut Sandra hvatningarverðlaun Félags lífeindafræðinga fyrir framúrskarandi námsárangur. Í kjölfarið hóf hún doktorsnám við Háskóla Íslands undir leiðsögn Ólafs Eysteins Sigurjónssonar, forstöðumanns stofnfrumuvinnslu í Blóðbankanum. Rannsóknir sem Sandra hefur unnið að ásamt samstarfsfólki sínu koma til með að stuðla að framförum í læknisfræði og þá sérstaklega á sviði stofnfrumulækninga. Hópurinn hefur unnið að þróun á tækni og aðferðum sem gera vísindamönnum kleift að rannsaka og rækta stofnfrumur án þess að nota dýrafurðir. Markmiðið er að bæta núverandi aðferðir og flýta fyrir þróun á stofnfrumumeðferðum sem geta gagnast sjúklingum. Sandra stofnaði fyrirtækið Platome Líftækni ásamt Ólafi til að auka aðgengi að þessari tækni og er nú unnið að markaðssetningu á fyrstu vörum fyrirtækisins. Platome Líftækni hefur hlotið fjölmörg verðlaun en fyrirtækið hefur meðal annars hlotið Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands (3. Verðlaun), varð í 2. sæti í Gullegginu og Nýsköpunarviðurkenningu Brautargengis frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þar að auki hlaut Sandra Women in Tissue Engineering and Regenerative Medicine Award frá National Science Foundation í Bandaríkjunum síðasta haust.

JCI (Junior Chamber International) er alþjóðleg hreyfing fyrir ungt fólk á aldrinum 18-40 ára sem hefur áhuga og metnað til að efla hæfileika sína og hafa jákvæð áhrif í kringum sig. Verðlaunin „Framúrskarandi ungir Íslendingar” eru partur af alþjóðlegri viðurkenningu sem að JCI stendur fyrir um allan heim til að vekja athygli á því sem er vel gert og einnig til að hvetja annað ungt fólk til dáða. Á hverju ári er óskað eftir tilnefningum þar sem allir geta tilnefnt unga Íslendinga sem þeim þykja skara fram úr. Sérstök dómnefnd fer svo yfir tilnefningar og velur 10 framúrskarandi einstaklinga sem hljóta viðurkenningu. Einn þessara einstaklinga hlýtur svo verðlaunin Framúrskarandi ungur Íslendingur. Verðlaunin „Framúrskarandi ungur Íslendingur 2016” hlaut Tara Ösp Tjörvadóttir, hún hefur barist fyrir fordómum gegn andlegum sjúkdómum og er ein af forsprökkum #égerekkitabú samfélagsmiðlabyltingarinnar. Sjá nánar á heimasíðu JCI. 

Elín Edda Sigurðardóttir, kandídatsnemi í læknisfræði, og Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, aðjúnkt við Læknadeild, voru tilnefndar til verðlaunanna „Framúrskarandi ungur Íslendingur 2016”.
Verðlaunin voru afhent við formlega athöfn í Safnahúsinu þann 24. maí sl.
Elín Edda Sigurðardóttir, kandídatsnemi í læknisfræði, og Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, aðjúnkt við Læknadeild, voru tilnefndar til verðlaunanna „Framúrskarandi ungur Íslendingur 2016”.
Verðlaunin voru afhent við formlega athöfn í Safnahúsinu þann 24. maí sl.