Skip to main content
3. desember 2018

Tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

""

Tveir prófessorar við Háskóla Íslands, þau Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Sverrir Jakobssson, eru tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2018 í flokki fræðibóka og rita almenns efnis fyrir verk sem komu út fyrr á árinu. Tilnefningarnar voru kynntar við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum laugardaginn 1. desember. 

Tilnefnt er til verðlaunanna í þremur flokkum, í flokki barna- og ungmennabóka, fræðibóka og rita almenns efnis og fagurbókmennta, og eru fimm bækur tilnefndar í hverjum flokki. 

Þóra Ellen, sem er prófessor í plöntuvistfræði við Líf- og umhverfisvísindadeild, er tilnefnd til verðlaunanna ásamt þeim Herði Kristinssyni og Jóni Baldri Hlíðberg fyrir bókina Flóra Íslands – blómplöntur og byrkningar. Um er að ræða yfirgripsmesta rit sem út hefur komið um íslenskar plöntur en það er Vaka - Helgafell sem gefur út. Í ritinu eru öllum 467 æðplöntutegundum íslensku flórunnar lýst í máli og myndum auk þess sem fjallað er ítarlega um byggingu, lífsferla og þróun plantna. Segir á heimasíðu Forlagsins að verkið byggist á áratuga vinnu höfunda sem eru meðal fremstu sérfræðinga landsins. 

Sverrir Jakobsson, sem er prófessor í miðaldasögu við Sagnfræði- og heimspekideild, er tilnefndur til bókmenntaverðlaunanna fyrir bókina Kristur – Saga hugmyndar sem Hið íslenska bókmenntafélag gefur út. Bókin fjallar um upphaf rótgróinna hugmynda um Krist, hvernig þær mótuðust og af hverju þær eru svo eðlisólíkar. Rakið er hvernig hið sögulega minni um þessa máttugu persónu tók sífelldum breytingum fyrstu aldirnar. Sögusviðinu er lýst, samfélagi Gyðinga í Palestínu, en einnig hinum stærri heimi sem það tilheyrði, hinum grískumælandi hluta Rómaveldis. Greint er frá því hvernig hugmyndir um Krist tóku á sig staðlaða mynd og af hverju sum rit um ævi hans hlutu almenna viðurkenningu meðan öðrum var hafnað. Að lokum er fjallað um klofning kristinna manna í rétttrúaða og villutrúarmenn sem hefur mótað sögu þeirra.

Íslensku bókmenntaverðlaunin verða afhent á Bessastöðum um mánaðamótin janúar/febrúar næstkomandi.

Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Sverrir Jakobsson