Skip to main content

Tilkynnt um nafn á nýtt hús erlendra tungumála

15. apr 2017

Tilkynnt verður um niðurstöðu samkeppni um heiti nýs húss erlendra tungumála í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 18. apríl nk. kl. 12. Húsið verður vígt við hátíðlega athöfn á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 20. apríl nk.

Efnt var til samkeppni um heiti hússins og bárurst hátt í 800 tillögur frá rúmlega 1.000 einstaklingum. Valnefnd fór yfir tillögurnar og komst að einróma niðurstöðu sem háskólaráð staðfesti. Í valnefnd áttu sæti þau Eiríkur Smári Sigurðarson frá Hugvísindasviði (formaður), Geir Þórarinn Þórarinsson, fulltrúi stjórnar SVF, Guðrún Kvaran, fulltrúi Vigdísarstofnunar, og Inga Jóna Þórðardóttir, fulltrúi rektors. 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, mun tilkynna um heitið í Hátíðasal í Aðalbyggingu þriðjudaginn 18. apríl kl. 12 og munu sigurverar í nafnasamkeppninni veita verðlaunum viðtöku. Allir eru velkomnir á athöfnina.

Í húsi erlendra tungumála verður, auk kennslu í erlendum tungumálum, að finna Vigdísarstofnun en hún er starfrækt á grundvelli samkomulags milli íslenskra stjórnvalda og UNESCO. Auk rannsókna- og vísindastarfs er hlutverk Vigdísarstofnunar að vekja athygli á mikilvægi tungumála fyrir menningu alls mannkyns og gildi þýðinga og tungumálakunnáttu fyrir farsæl samskipti þjóða. 

Þegar hefur verið gengið frá ráðningu Sebastians Drude sem forstöðumanns Vigdísarstofnunar en hlutverk hans er að annast daglegan rekstur stofnunarinnar auk þess að efla rannsókna- og þróunarstarf hennar.

Nánar má lesa um Vigdísarstofnun og ráðningu Drude á heimasíðu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

hús erlendra tungumála
Sebastian Drude