Skip to main content
13. mars 2015

Tilkynning frá kjörstjórn vegna rektorskosninga 2015

Mánudaginn 13. apríl 2015 fer fram kjör rektors Háskóla Íslands fyrir tímabilið 1. júlí 2015 til 30. júní 2020. Þrír einstaklingar hafa sótt um embætti rektors og eru þeir einir í framboði. Þeir eru Einar Steingrímsson, prófessor við Strathclyde-háskóla í Glasgow í Skotlandi, Guðrún Nordal, prófessor og forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Jón Atli Benediktsson, prófessor og aðstoðarrektor vísinda og kennslu við Háskóla Íslands.

Kosning verður rafræn og stendur kjörfundur yfir frá kl. 9.00 árdegis til kl. 18.00 síðdegis.

Hljóti enginn frambjóðenda meirihluta greiddra atkvæða verður kosið að nýju 20. apríl nk. um þá tvo frambjóðendur sem flest atkvæði hljóta.

Á kjörskrá eru 14.110, 1.485 starfsmenn og 12.625 stúdentar.

Frá kl. 13.00 föstudaginn 13. mars til kl. 13.00 mánudaginn 23. mars liggur útprentuð kjörskrá frammi á upplýsingaskrifstofu í anddyri Aðalbyggingar Háskóla Íslands. Upplýsingaskrifstofan er opin frá kl. 8.00 til 17.00 mánudaga til fimmtudaga og frá kl. 8.00 til 16.00 föstudaga.

Kjósandi getur jafnframt frá og með 16. mars kannað í Uglu hvort hann sé á kjörskrá og vægi atkvæðis síns. Við rafræna kosningu notar kjósandi aðgangs- og lykilorð sitt að Uglu.

Kærufrestur vegna kjörskrár rennur út 30. mars 2015 kl. 17.00. Úrskurður kjörstjórnar um kærur mun liggja fyrir þann 1. apríl.

Kosning utan kjörfundar verður með hefðbundnum hætti á pappír og hefst  1. apríl 2015 kl. 13.00 og verður í Doktorsherbergi (nr. 224) á 2. hæð í Aðalbyggingu Háskóla Íslands, norðurgangi, frá kl. 9.00 til 16.00 virka daga.

Kosningu utan kjörfundar lýkur 10. apríl kl. 16.00.

Yfirlit

Kjörfundur

Rafræn kosning hefst kl. 9.00 og lýkur kl. 18.00 mánudaginn 13. apríl 2015.

Hljóti enginn frambjóðenda meirihluta greiddra atkvæða verður kosið að nýju mánudaginn 20. apríl 2015 um þá tvo frambjóðendur sem flest atkvæði hlutu.

Atkvæðisréttur

Atkvæðisrétt eiga prófessorar, dósentar, lektorar, vísindamenn, fræðimenn og sérfræðingar, skipaðir eða ráðnir í fullt starf, og aðrir þeir sem skipaðir eru eða ráðnir í fullt starf við háskólann og stofnanir hans. Starfshlutfallið 75% og hærra telst vera fullt starf. Nú gegnir maður starfi í hlutfallinu 37-74% og fer hann þá með hálft atkvæði. Starfshlutfall sem er lægra en 37% veitir ekki atkvæðisrétt. Starfsmaður sem gegnir starfshlutfallinu 50% og hærra samhliða starfi á stofnun sem háskólinn hefur gert samning við um samstarf á fræðasviði telst gegna fullu starfi. Þá eiga allir stúdentar sem skrásettir voru í Háskóla Íslands þann 12. mars sl. atkvæðisrétt.

Vægi atkvæða

Atkvæði háskólakennara, sérfræðinga og annarra starfsmanna sem hafa háskólapróf skulu gilda sem 60% greiddra atkvæða. Atkvæði stúdenta skulu gilda sem 30% greiddra atkvæða og atkvæði annarra atkvæðisbærra aðila skulu gilda sem 10% greiddra atkvæða. Starfsmenn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum teljast til annarra atkvæðisbærra aðila án tilllits til þess hvort þeir hafa háskólapróf.

Kjörskrá

Frá kl. 13.00 13. mars til kl. 13.00 23. mars mun kjörskrá liggja frammi á upplýsingaskrifstofu Aðalbyggingar Háskóla Íslands, frá kl. 8.00 til 17.00 mánudaga til fimmtudaga og frá kl. 8.00 til 16.00 föstudaga.

Kærur

Kærur vegna kjörskrár skulu berast kjörstjórn í síðasta lagi mánudaginn 30. mars fyrir kl. 18.00. Þær skal senda til kjörstjórnar með tölvupósti kjorstjorn@hi.is eða bréflega til formanns kjörstjórnar.

Kosning utan kjörfundar

Kosning utan kjörfundar verður með hefðbundnum hætti á pappír og hefst 1. apríl 2015 kl. 13.00 og verður í Doktorsherbergi (nr. 224) á 2. hæð í Aðalbyggingu Háskóla Íslands, norðurgangi, frá kl. 9.00 til 16.00 virka daga. Kosningu utan kjörfundar lýkur 12. apríl kl. 16.00.

Kjörstjórn

Í kjörstjórn eiga sæti:

  • Björg Thorarensen prófessor, formaður
  • Hjálmtýr Hafsteinsson, dósent
  • Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor
  • Trausti Fannar Valsson, lektor
  • Bergþór Bergsson, stúdent
  • Álfrún Perla Baldursdóttir, stúdent

Vefsíða rektorskjörs 2015 verður opnuð strax eftir helgi. 

Reglur um rektorskjör og verklagsreglur um rafræna kosningu:

Rektorskjör við Háskóla Íslands fer fram 13. apríl.