Skip to main content
14. ágúst 2015

Til Kenía með kennslukerfi í ferðatösku

Gunnar Stefánsson, prófessor í tölfræði við Raunvísindadeild, er nýkominn heim frá Kenía þar sem hann kynnti og prófaði tutor-web kennslukerfið í  tveimur háskólum. Með nýrri útfærslu á kerfinu er ekki lengur þörf að sítengingu netið til þess að geta leyst verkefni.

Tutor-web er ókeypis netkennslukerfi í stærðfræði og tölfræði sem Gunnar hefur þróað ásamt samstarfskonu sinni og fyrrverandi doktorsnema, Önnu Helgu Jónsdóttur, aðjunkt við Raunvísindadeild. Æfingarnar í kerfinu eru ekki hugsaðar sem próftæki heldur eiga nemendur að læra á að svara þeim. Þegar æfing hefur verið leyst fær nemandinn að vita um leið hvort lausn hans var sú rétta og ef ekki, hvernig rétt lausn fæst með útskýringum. 

Hugmyndin að kerfinu kviknaði hjá Gunnari fyrir rúmum 15 árum. „Á þeim tíma stunduðu nemendur mínir það að afrita heimaverkefni hver hjá öðrum og ég fékk stundum sjö lausnir sem voru allar með sömu litlu vitleysunni. Enn fremur bjuggu kennarar til sitt eigið kennsluefni hver í sínu horni. Upp úr þessu spratt hugmyndin að tutor-web, kennslukerfi þar sem nemendur gætu sjálfir sótt kennsluefni og æfingar og sem kennarar hvar sem er í heiminum gætu nýtt,“ segir Gunnar. Kerfið hefur verið í stöðugri þróun síðan og hefur það m.a. reynst afar vel við kennslu í stórum námskeiðum í stærðfræðigreiningu og tölfræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands og við undirbúning nýnema fyrir nám á sviðinu.

Snemma í þróunarvinnu kerfisins leitaði Gunnar samstarfs utan landsteinana enda sá hann fyrir sér að kennsluefni í kerfinu yrði einnig tiltækt á ensku þannig að hægt væri að nýta það hvar sem er í heiminum. „Ég fann öll enskumælandi lönd í heiminum og sendi tölvupóst á háskóla í löndunum og kynnti hugmyndina. Ég fékk engin svör í hinum vestrænu ríkjum en áhuginn var fyrst og fremst frá þriðja heims ríkjum,“ segir Gunnar sem hefur m.a. átt í samstarfi við kennara í Suður-Afríku.

Á ráðstefnu í Barcelona komst Gunnar í kynni við kennara við Maseno-háskóla í Kenía, sem sýndi kennslukerfinu mikinn áhuga. Úr varð að Gunnar kynnti kerfið í Naíróbí en Anna Helga heimsótti Maseno árið 2012 og prófaði kerfið þar. „Þar á bæ voru menn mjög hrifnir af því en við glímdum við augljós vandamál. Annars vegar var ekki hægt reikna með nettengingu og svo getur rafmagn verið stopult. Niðurstaðan var því að koma upp fartölvu með þráðlausum sendi og netþjóni sem spjaldtölvur geta tengst og talað við. Spjaldtölvurnar þurfa þó ekki að vera sítengdar netþjóninum til þess að kennslukerfið virki heldur geta nemendur farið heim með þær og unnið áfram í æfingum í kerfinu,“ segir Gunnar en þessi útfærsla hefur fengið nafnið Education in a suitcase. 

Gunnar lagði  land undir fót í lok júlímánaðar með fartölvuna og 20 spjaldtölvur í ferðatöskunni og hélt til Kenía til þess að prófa þessa útfærslu. Hann heimsótti bæði Maseno-háskóla og ráðstefnu við Strathmore-háskólann í Naíróbí um stærðfræðikennslu. „Þessi útfærsla svínvirkaði og nokkrir aðilar ætla að nota kerfið í háskólunum sínum strax í haust, en líka innan veggja framhaldsskóla. Næsta mál er því að kynna það betur fyrir kennurum í framhaldsskólum og þjálfa þá í notkun þess,“ segir Gunnar.

Sem fyrr segir hefur kennslukerfið nýst vel í stórum inngangsáföngum í stærðfræði og tölfræði í Háskóla Íslands þar sem það sparar mikla vinnu við yfirferð. Þá hefur kerfið einnig að geyma efni í stærðfræði og tölfræði fyrir menntaskólanema auk námskeiðs í forritun. Enn fremur geymir það inntökunámskeið fyrir þá doktorsnema sem Gunnar tekur að sér að leiðbeina. „Kerfið hefur ótal möguleika til frekari þróunar, hvort sem er á háskólastigi eða öðrum skólastigum,“ segir Gunnar.

Gunnar kynnir kennslukerfið í Maseno-háskóla í Kenía.
Með nýrri útfærslu á kerfinu er ekki lengur þörf að sítengingu netið til þess að geta leyst verkefni heldur geta nemendur unnið þau á spjaldtölvu án nettengingar.
Gunnar kynnir kennslukerfið í Maseno-háskóla í Kenía.
Með nýrri útfærslu á kerfinu er ekki lengur þörf að sítengingu netið til þess að geta leyst verkefni heldur geta nemendur unnið þau á spjaldtölvu án nettengingar.