Skip to main content
8. mars 2017

Þróaði foreldrastýrða meðferð gegn stami

""

Skortur á rannsóknum á stami hjá börnum varð kveikjan að stóru rannsóknaverkefni sem Jóhanna Thelma Einarsdóttir,  dósent við námsbraut í talmeinafræði, stýrir og miðar að því að þjálfa foreldra í að veita meðferð gegn stami barna sinna. Útkoman er meðferðarúrræði sem Jóhanna hyggst nú þróa enn betur í samstarfi við erlenda vísindamenn.

„Ég hef haft mikinn áhuga á stami og sérhæfði mig í að vinna með stam í áratugi og það endaði með því að ég skrifaði doktorsritgerð um stam leikskólabarna. Ég hef haft mikinn áhuga á því að þróa markvissari meðferðarleiðir við stami sem geta auðveldað þeim sem stama að takast á við vandann í daglegu lífi,“ segir Jóhanna aðspurð um hvers vegna hún hafi ákveðið að ráðast í rannsóknina.

Erfitt að rannsaka stam

Hún bendir á að erfitt sé að rannsaka stam þar sem það sé margbreytilegt og geti jafnvel komið og farið. „Sumir stama bara tímabundið og jafnvel bara við ákveðnar aðstæður. En það er til hópur fólks sem glímir við þrálátt stam við allar aðstæður þegar það reynir að tjá sig. Með þennan hóp í huga vildi ég skoða með nákvæmum hætti hvort einhverjar leiðir væru til sem gætu auðveldað þeim að tala áreynslulaust,“ segir Jóhanna.

Rannsókn Jóhönnu hófst 2014 en þá fékkst verkefnastyrkur frá Rannís til að vinna verkefnið. „Markmið rannsóknarinnar er að skoða áhrif meðferðar á stam skólabarna. Meðferðin er sérstök að því leyti að foreldrar eru þjálfaðir í að veita meðferðina og fara æfingarnar fram heima fyrir í eðlilegu umhverfi barnsins. Hún er líka einstök að því leyti að skoðað er hversu nákvæmlega foreldrar og börn fylgja meðferðaráætlun,“ segir Jóhanna. 

Áður en meðferð hefst fer fram ítarleg mæling á tali barnanna til þess að kanna hversu alvarlegt stamið er. „Þetta er gert með því að skoða myndbönd frá fimm mismunandi talaðstæðum sem foreldrar taka upp og senda inn mánaðarlega í þrjá til fimm mánuði. Falli einstaklingur undir viðmið hefst meðferð sem felst í því að foreldrar og börn læra tækni við að stoppa stamið í almennu spjalli. Sérstakt app var þróað fyrir meðferðina og tóku foreldrar og börn upp samtöl tvisvar á dag og sendu myndbönd til talmeinafræðinga sem fóru yfir þau og gáfu endurgjöf. Foreldrar tóku auk þess mánaðarlega upp myndbönd frá mismunandi talaðstæðum þannig að fylgst var með hverjum einstaklingi í tvö ár,“ segir Jóhanna um þetta viðamikla verkefni.

Meðferðin skilar góðum árangri

Sterkur hópur kemur að rannsókninni með Jóhönnu en í tengslum við hana hafa verið skrifaðar þrjár meistaraprófsritgerðir og væntanleg er ein doktorsritgerð. „Doktorsneminn Íris Ösp Bergþórsdóttir er að skrifa um meðferðarheldni rannsóknarinnar, talmeinafræðingurinn Kirstín Lára Halldórsdóttir hefur séð um daglega umsjón rannsóknarinnar og tveir nýútskrifaðir talmeinafræðingar, Ása Einarsdóttir og Sigfús Helgi Halldórsson, auk fleiri nema í talmeinafræði, hafa séð um að fara yfir myndböndin og senda foreldrum endurgjöf samkvæmt ákveðnum fyrirmælum. Auk íslenska hópsins hafa tveir erlendir sérfræðingar starfað náið með hópnum, þeir Roger Ingham, prófessor í Santa Barbara í Kaliforníu, og Jack James, prófessor í sálfræði við Háskólann í Reykjavík,“ segir Jóhanna um samstarfshópinn.

Eitt af því sem kom Jóhönnu á óvart í niðurstöðunum er hversu fáir glíma við þrálátt alvarlegt stam. „Við höfðum samband við 43 einstaklinga á aldrinum 9-12 ára en af þeim féllu eingöngu 11 undir viðmið rannsóknarinnar og 7 höfðu áhuga á þátttöku. Niðurstöður sýndu að þeir sem fylgdu meðferðaráætlun nákvæmlega náðu mjög góðum árangri og mun betri árangri en þeir sem áttu erfitt með að nýta sér tæknina eða skiluðu ekki inn upptökum á réttum tíma,“ bendir Jóhanna á.

Jóhanna bætir við að lítið hafi verið skrifað á alþjóðavettvangi um meðferðarleiðir við stami skólabarna og því hafi rannsóknin líka þýðingu utan landsteinanna. „Hún veitir auk þess mikilvægar upplýsingar um faraldsfræði stams og sýnir hversu brýnt er að skoða og afmarka hóp þeirra sem stama með nákvæmari hætti en áður hefur verið gert. Nú er hafið samstarf við Háskólann í Gent í Belgíu þar sem væntanlega verður haldið áfram með að þróa meðferðina og kanna áhrif hennar á starfsemi heilans við tal,“ segir Jóhanna um framhaldið.

Jóhanna Thelma Einarsdóttir