Skip to main content
16. desember 2015

Þróa nýtt hagfræðilíkan fyrir heiminn

Fyrsti fundur aðstandenda alþjóðlegs rannsóknaverkefnis, sem miðar að því að að þróa nýtt hagfræðilíkan fyrir heiminn og þjálfa nýja kynslóð vísindamanna í sjálfbærnirannsóknum, var haldinn í Háskóla Íslands dagana 14. og 15. desember.  

Verkefnið ber heitið Aðlögun að nýjum hagfræðiraunveruleika (AdaptEcon) og er ætlun vísindamanna sem að því standa að þróa nýtt hagfræðilíkan sem byggt er á sjálfbærri nýtingu á náttúruauðlindum í heiminum. Tólf doktorsnemar taka þátt í verkefninu, sem hlaut 500 milljóna króna styrk frá Marie Curie áætlun Evrópusambandsins, og verða þeir þjálfaðir í þverfaglegum hugsunarhætti sem byggður er á náttúruvísindum, lífeðlisfræðilegri hagfræði og stefnumótun sem byggð er á  skýrum gögnum. Þessi fræði verða tvinnuð saman með svokölluðum kvikum kerfislíkönum.  

Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor í Jarðvísindadeild, leiðir verkefnið og hennar samstarfsfólk í Háskóla Íslands eru Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði, og Harald Sverdrup, prófessor í iðnaðarverkfræði. Grunninn að doktorsverkefnunum tólf er að finna í nýlegri grein sem ber heitið Náttúruauðlindir frá sjónarhóli plánetu.  

Verkefnið er unnið í samvinnu við Stokkhólmsháskóla og Universite Blaise Pascal í Clairmont Ferrand í Frakklandi. Auk þess koma fimm stofnanir og félagasamtök að þjálfuninni: Schumacher Institute í Bristol á Englandi, New Economics Foundation í London í Englandi, Swedish National Defence College í Stokkhólmi í Svíþjóð, Wuppertal Institute í Berlín í Þýskalandi og Institute of Economic Structures Research í Osnabrück í Þýskalandi.  

Aðstandendur AdaptEcon-verkefnisins í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, á dögunum.
Aðstandendur AdaptEcon-verkefnisins í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, á dögunum.