Skip to main content
12. júní 2015

Þrír nemendur úr Viðskiptafræðideild til Stanford

Gaman er að segja frá því að þrír nemendur úr Viðskiptafræðideild hafa komist inn í sumarnám við Stanford-háskóla í Kaliforníu, í svonefnt Stanford Summer International Honors Program (SSIHP).

Stanford er einn fremsti rannsóknaháskóli Bandaríkjanna og er mikill fengur að samstarfi hans og Háskóla Íslands. Nemendur Háskóla Íslands hafa tekið þátt í SSIHP við Stanford undanfarin fjögur sumur og hafa verið afar ánægðir með námið og dvölina alla. Þetta tækifæri getur nýst þeim nemendum vel sem hyggja á framhaldsnám í Bandaríkjunum.

Til þess að komast í sumarnámið þarf nemandi fyrst að sækja um það við Háskóla Íslands. Valið er úr umsóknum og þeir sem skara fram úr tilnefndir til Stanford. Þeir nemendur sækja svo um að komast í sumarnámið.

Að þessu sinni voru það þrír nemendur við Viðskiptafræðideild sem komust áfram, þau Darri Freyr Atlason, Helga Hólm Guðbjörnsdóttir og Lilja Gylfadóttir.

Við náðum tali af þeim Helgu Hólm og Lilju áður en þær héldu utan og spurðum hverjar væntingar þeirra væru.

Helga Hólm sagðist spennt að fara utan og vonaði að þetta myndi víkka sjóndeildarhringinn. Hún gerði ráð fyrir að þetta nýttist sem góð reynsla inn í framtíðina auk þess að vera skemmtilegt. Hún stefnir á að halda síðar í meistaranám erlendis og þá helst í Bandaríkjunum.

Lilja Gylfadóttir sagði að hún hefði sótt um því sér hefði þótt þetta spennandi tækifæri fyrir sig sem einstakling en einnig til að sjá hvernig kennsla færi fram hjá skóla eins og Stanford. Hana langaði jafnframt til þess að komast í alþjóðlegt umhverfi og taka þátt í einhverju stærra og meira en því sem í boði er á Íslandi. Henni fannst þetta jafnframt ótrúlega spennandi tækifæri og sagði að hún hefði orðið fúl út í sjálfa sig ef hún hefði ekki látið reyna á að sækja um. Lilja var búin að heyra góða hluti um þetta nám og vonaðist til að styrkja sig námslega og persónulega í nýju umhverfi og hlakkar til að spreyta sig á námi við virtan háskóla eins og Stanford.

Við hjá Viðskiptafræðideild óskum þeim góðrar ferðar.

Stanford háskólasvæði
Stanford háskólasvæði