Skip to main content
23. nóvember 2016

Þrautseigja fugla á hreiðri dregur úr afráni

„Einn orkufrekasti og hættulegasti tíminn í lífsferli fuglanna er álegan, tímabilið þar sem legið er á eggjum. Á þeim tíma eru fuglar bundnir við jörðina og geta ekki étið á meðan. Hjá tegundum þar sem báðir foreldrar liggja á eggjum getur skipt miklu fyrir afkomu unganna hvernig álegutíma foreldra er skipt.“

Þetta segir José Alves, nýdoktor við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi, en hann er einn meðhöfunda að grein sem birtist í Nature í dag. Hún ber yfirskriftina Unexpected diversity in socially synchronized rhythms of shorebirds. Tímaritið Nature er meðal allra virtustu tímarita sinnar tegundar í heiminum en það kemur út vikulega og hefur raunvísindi í háskerpu.

Vaðfugla þekkjum við Íslendingar býsna vel úr okkar umhverfi, t.d. lóu, spóa, og stelk, en þessar tegundir sýna mikinn breytileika í álegumynstri kynjanna. Nýverið fór fram viðamikil rannsókn til að skýra þennan breytileika. Rannsóknina leiddu vísindamenn við Max Planck stofnunina í Þýskalandi en þátttakendur voru vísindafólk víða að úr heiminum. Kannaðir voru 91 vaðfuglastofnar víða um heim en José Alves kannaði þá hér á landi. 

„Mikill breytileiki var í álegulotum, bæði innan tegunda og milli tegunda,“ segir José. „Vaðfuglar af sumum tegundum hafa vaktaskipti upp í 20 sinnum á dag meðan að álegulotur upp í 50 klukkustundir hafa mælst hjá öðrum.“ 

José segir að ekki sé hægt að skýra mun á lengd álegulota með orkuþörf foreldranna því stórvaxnari tegundir, sem halda hita betur, lágu ekki lengur á í einni lotu og ekki reyndist heldur beint samband milli lofthita, þ.e. breiddargráðu, og lengd álegulotanna.  

„Hins vegar virðist mismunandi hætta á afráni skýra mun á álegumynstri milli tegunda,“ segir José og bætir við að tegundir sem reiði sig á felubúning, t.d. rauðbrystingur, sitji fastar á og lengur í einu. „Þær eiga á hættu að koma upp um staðsetningu hreiðursins þegar foreldrar hafa vaktaskipti og því getur það minnkað líkur á afráni að sitja sem fastast á hreiðrinu. Tegundir sem sjást vel þar sem þær liggja á hreiðri og ráðast að auki á afræningja, eins og t.d. tjaldur og spói, skipta hins vegar oftar um hlutverk þar sem það hefur lítið gildi að minnka virkni við hreiður.“

Það virðist því vera samkvæmt rannsókninni að afránsþrýstingur skýri mikinn breytileika í álegumynstri vaðfugla en ekki orkubúskapur. „Þá kom einnig í ljós í rannsókninni að álegumynstur, sem fylgja 24 klukkustunda takti, voru sjaldgæfari á norðlægari slóðum þar sem bjart er á nóttinni og slík mynstur fundust alls ekki í 18 norrænum tegundum sem skoðaðar voru,“ segir Jose.

Greinin í Nature.

Jose Alves með jaðrakan
Leirutíta