Skip to main content
24. febrúar 2015

Þekktir sérfræðingar í loftlagsmálum á ráðstefnu í HÍ

Nokkrir af  þekktustu sérfræðingum samtímans á sviði loftslagsrannsókna verða staddir hér á landi í vikunni og taka þátt í tveimur viðburðum í tengslum við verkefnið Earth101. Annars vegar er um að ræða erindi Kevins Anderson, prófessors og fráfarandi forstöðumanns Tyndall-loftslagsstofnunarinnar í Manchester, miðvikudaginn 25. febrúar og hins vegar ráðstefnu sem fram fer á Háskólatorgi sunnudaginn 1. mars.

Erindi Kevins Andersson fer fram í stofu 105 á Háskólatorgi miðvikudaginn 25. febrúar kl. 13.50–14.50 og ber heitið „Strúturinn eða fönixinn? Mishljómur eða sköpunargleði í heimi loftslagsbreytinga“. Anderson, sem er að taka við formennsku í orku- og loftslagsdeild Manchester-háskóla, er virkur rannsakandi og hefur nýlega birtinga greinar í tímaritum Royal Society og Nature. Hann vinnur að hinum ýmsu verkefnum fyrir stjórnvöld, allt frá skýrslugerð um losun gróðurhúsalofttegunda af völdum flugsamgangna fyrir Evrópuþingið til ráðgjafastarfa fyrir breska forsætisráðuneytið, m.a. um loftslagsstefnu Bretlands. Þess má geta að Anderson er hættur að fljúga af siðferðilegum ástæðum og leggur á sig langt og strangt ferðalag með stórflutningaskipum Eimskipafélagsins til þess að taka þátt í viðburðunum hér á landi.

Nánari upplýsingar um Anderson og erindi hans eru á viðburðavef Háskóla Íslands.

Anderson flytur einnig erindi á á ráðstefnunni „Heit framtíð, kalt stríð: Vísindin og loftslagsumræðan“ sem fram fer sunnudaginn 1. mars kl. 13 í stofu 105 á Háskólatorgi. Auk Andersons munu þeir munu þeir Gavin Schmidt, forstöðumaður NASA GISS, Erick Fernandes, ráðgjafi um landbúnað, skógrækt og loftlagsbreytingar við Alþjóðabankann, Erik M. Conway, prófessor við Caltech-háskóla í Kaliforníu, og Guðni Elísson, prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, flytja fyrirlesta á ráðstefnunni. Halldór Björnsson, verkefnisstjóri loftslagsrannsókna hjá Veðurstofu Íslands, stýrir umræðum.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna eru á viðburðavef háskólans.

Earth101 er verkefni sem hefur það að markmiði að leiða saman helstu sérfræðinga heims á sviði loftslagsmála og þekkt kvikmyndagerðafólk í samtal um þau margvíslegu vandamál sem blasa við í loftslagsmálum og miðlun þeirra rannsóknarniðurstaðna sem snúa að málaflokknum. Earth101 á í samstarfi við evrópsku kvikmyndahátíðina Stockfish, sem nú stendur yfir í Reykjavík, og á hátíðinni verða sýndar heimildamyndir sem snúa beint að loftslagsmálum. Annars vegar myndir úr Action4Climate kvikmyndasamkeppninni og hins vegar heimildamyndin Merchants of Doubt.