Skip to main content
18. nóvember 2016

Þátttaka ungs fólks lykillinn að þróun lýðræðis

Þátttaka ungs fólks lykillinn að þróun lýðræðis - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ráðstefnan Íslenskar æskulýðsrannsóknir verður haldin í áttunda sinn mánudaginn 21. nóvember 2016 í Bratta í húsnæði Menntavísindasviðs við Stakkahlíð.

Viðfangsefni ráðstefnunnar að þessu sinni er þátttaka barna og ungmenna. Steingerður Kristjánsdóttir, aðjúnkt í tómstunda- og félagsmálafræði og einn skipuleggjandi ráðstefnunnar, segir að þátttaka ungs fólks sé lykillinn að þróun öflugs lýðræðissamfélags þar sem jafnrétti, virðing, margbreytileiki og sköpun eru meðal grunngilda. „Framlag ungs fólk í samfélaginu er þýðingarmikið til að móta nýjar hefðir og tryggja að hugmyndir og framtíðarsýn nýrrar kynslóðar heyrist í opinberri umræðu. Ísland er jafnframt aðili að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hefur þar með skuldbundið sig til að efla samfélagsþátttöku barna og ungmenna á öllum sviðum, s.s. innan skólastofnana, menningar og listastarfsemi, félags- og velferðarþjónustu og íþrótta- og æskulýðsstarfsemi af öllu tagi,“ bendir Steingerður á. Viðfangsefnið hefur verið talsvert í umræðunni undanfarið, m.a. í tengslum við síðustu alþingiskosningar. Tveir aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar munu m.a. fjalla um kosningahegðun og borgaralega þátttöku ungs fólks.

Auk aðalfyrirlesarar verða hátt í þrjátíu erindi flutt í fjórum málstofum sem fjalla á einn eða annan hátt um hvernig efla megi þátttöku ungs fólks á ólíkum vettvangi, m.a. í íþróttastarfi, félagsmiðstöðvum, skólastarfi og jafningjafræðslu. Þá veitir Æskulýðsráð ríkisins viðurkenningu vegna framlags á sviði æskulýðsmála. Þetta er í þriðja sinn sem þessi viðurkenning er veitt og er markmið hennar að vekja athygli á því sem er til fyrirmyndar í æskulýðsstarfi og vera hvatning til þróunar, nýsköpunar og þátttöku.

Ráðstefnan er öllum opin og er þátttökugjald 2500 krónur. Innifalið í því er léttur hádegisverður og te/kaffi.

Skráning og nánari upplýsingar hér.

Að ráðstefnunni standa námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræði við Menntavísindasvið í samstarfi við Menntavísindastofnun Háskóla Íslands, Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, Rannsóknarstofa í bernsku- og æskulýðsfræðum, Félag fagfólks í frítímaþjónustu og fleiri.

Ráðstefnan er styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Hópefli á Klambratúni