Skip to main content
24. maí 2016

Teymisvinna í brennidepli

""

Stýrihópur Heilsutorgs Heilbrigðisvísindasviðs stóð fyrir málþingi um teymisvinnu föstudaginn 20. maí sl. í Eirbergi. Yfirskrift málþingsins var „Teymisvinna í takt við tímann“.

Birgir Jakobsson landlæknir opnaði málþingið með erindi sem bar heitið „Af hverju er teymisvinna mikilvæg í heilbrigðiskerfinu?“. Birgir lagði áherslu á teymisvinnu til að stuðla að öryggi heilbrigðisþjónustunnar þar sem sjúklingurinn er í fyrirrúmi.

Guðrún Á. Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur fjallaði um nýjungar í teymisvinnu á Landspítalanum. Hún greindi frá STREYMA-verkefninu en það er nýtt form á samræmdum stofugangi þar sem öll samskipti fara fram við sjúkrabeð sjúklings. STREYMA er nú í innleiðingu á Landspítalanum.

Anna Kristín Sigmarsdóttir hjúkrunarfræðingur greindi frá nýjungum í teymisvinnu hjá Heilsugæslunni á Húsavík. Hún fjallaði um starfsmannabreytingum sem orðið höfðu sem kölluðu á nýja starfshætti og aukna teymisvinnu heilbrigðisstarfsfólks.  

Sóley S. Bender, formaður stýrihóps Heilsutorgs, flutti erindi um það sem hefur áunnist nú þegar Heilsutorg háskólanema hefur verið starfrækt í tvö ár á Heilsugæslu Glæsibæjar. Lagði hún áherslu á ávinning nemenda, leiðbeinenda og þjónustuþega af Heilsutorgi. Guðrún Bjarnadóttir, sálfræðingur og leiðbeinandi á Heilsutorgi, greindi frá sýn leiðbeinanda. Berglind S. Blöndal, nemi í næringarfræði, og Gunnar S. Jónbjörnsson, nemi í sjúkraþjálfun, greindu frá reynslu nemenda af Heilsutorgi.

Að síðustu flutti Teddie Potter, klínískur dósent við University of Minnesota School of Nursing, erindi undir yfirskriftinni „Transforming health care: A parntership approach“. Teddie gerði m.a. grein fyrir  heilbrigðisþjónustu sem byggist á yfirráðum (e.domination-based) og þeirri sem byggist á samvinnu (e.partnership-based) og hvernig þessi ólíka menning innan heilbrigðisstofnana getur haft áhrif á líðan heilbrigðisstarfsfólks og starfsemi stofnunarinnar og þar með gæði þjónustunnar.

Málþingið var tekið upp og verður upptakan gerð aðgengileg von bráðar. 

Sóley S. Bender, formaður stýrihóps Heilsutorgs, og Teddie Potter, klínískur dósent við University of Minnesota School of Nursing.
Sóley S. Bender, formaður stýrihóps Heilsutorgs, og Teddie Potter, klínískur dósent við University of Minnesota School of Nursing.