Skip to main content
29. janúar 2016

Tekur við starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist

""

Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur mun gegna starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist á yfirstandandi vormisseri. Hún mun vinna með ritlistarnemum að ritun sögulegra skáldverka.

Árið 2015 stofnaði Hugvísindasvið Háskóla Íslands til starfs sem kennt er við Jónas Hallgrímsson, eitt ástsælasta ljóðskáld Íslendinga fyrr og síðar. Starfið er ætlað rithöfundum sem taka að sér að vinna með nemum í ritlist eitt eða tvö misseri í senn. Fyrstur til að gegna starfinu var Sigurður Pálsson skáld.

Vilborg Davíðsdóttir er fædd á Þingeyri við Dýrafjörð árið 1965. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði árið 1984, lagði stund á ensku við Háskóla Íslands veturinn 1985-1986 og lauk prófi í hagnýtri fjölmiðlun árið 1991. Hún lauk BA-prófi í þjóðfræði 2005 og MA-prófi í sömu grein árið 2011. Meistaraprófsritgerð hennar fjallaði um munnlega sagnahefð og þjóðtrú á Hjaltlandseyjum. Hún starfaði sem blaðamaður, dagskrárgerðarmaður og fréttakona á hinum ýmsu fjölmiðlum frá árinu 1985 til ársins 2000 en hefur síðan þá helgað sig ritstörfum.

Vilborg hefur sérhæft sig í ritun sögulegra skáldsagna þar sem konur eru miðsviðs. Fyrsta bók hennar, skáldsagan Við Urðarbrunn, kom út árið 1993 og framhald hennar, Nornadómur, árið eftir. Þær gerast um aldamótin 900 og segja frá baráttu ambáttarinnar Korku Þórólfsdóttur fyrir betra lífi og fylgja henni eftir úr ánauð á Íslandi til Heiðabæjar í Danmörku og heim aftur um Suðureyjar og Orkneyjar til frelsis og landnáms á Vestfjörðum. Þriðja bók Vilborgar er Eldfórnin (1997), söguleg skáldsaga sem byggir á atburðum sem urðu í Kirkjubæjarklaustri á 14. öld þegar nunna var brennd þar á báli, og sú fjórða Galdur (2000) sem sömuleiðis byggir á sögulegum atburðum og gerist í Skagafirði á 15. öld þegar Englendingar réðu lögum og lofum á Íslandi. Fimmta skáldsaga hennar, Hrafninn (2005), er byggð á heimildum um lífshætti inúíta og norrænna manna á Grænlandi um miðja 15. öld og örlögum byggðanna sem stofnað var til þar af landnámsfólki frá Íslandi um árið 1000. Næst kom skáldsagan Auður (2009) sem fjallar um uppvaxtarár Auðar Ketilsdóttur djúpúðgu á eynni Tyrvist undan Skotlandsströndum. Framhald hennar, Vígroði, kom út haustið 2012.

Auk sinna sögulegu skáldsagna hefur Vilborg þýtt þrjár bækur og skrifað fjölda greina. Nýjasta bók hennar, Ástin, drekinn og dauðinn, kom út 2015. Þar hefur hún skrifað sannsögu um glímu eiginmanns hennar við ,,drekann“ en svo nefndu þau heilakrabbann sem dró hann til dauða árið 2013 og göngu hennar fyrsta árið með sorginni.

Vilborg hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín og þau hafa verið þýdd á ensku, þýsku og færeysku

Ritlist

Nám í ritlist er nú í boði sem meistaranám og sem aukagrein í grunnnámi. Ritlist hefur verið kennd við Háskóla Íslands frá 1987 en varð fyrst að fullgildri aðalgrein árið 2008. Meistaranám í greininni var tekið upp árið 2011 og fyrstu meistaranemarnir útskrifuðust árið 2013.

Mikil aðsókn hefur verið að ritlistarnámi undanfarin ár og hafa færri komist að en vildu. Frá 2008 hafa nemendur úr ritlist sent frá sér ríflega 60 verk og unnið til margra verðlauna, m.a. Íslensku barnabókaverðlaunanna, Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar, Fjöruverðlaunanna, Ljóðstafs Jóns úr Vör og Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Ritsmiðjur á grunnstigi eru opnar öllum háskólanemum meðan pláss leyfir. Tekið er inn í meistaranám í ritlist einu sinni á ári og er umsóknarfrestur til 15. apríl ár hvert. Senda skal allt að 30 síður af frumsömdu efni með umsókninni og velur inntökunefnd úr hópi umsækjenda.

Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur hefur tekið við starfi  Jónasar Hallgrímssonar í ritlist við Háskóla Íslands.
Guðmundur Hálfdanarson, forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, og Vilborg Davíðsdóttir við undirritun samnings um starf Jónasar Hallgrímssonar í ritlist.
Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur hefur tekið við starfi  Jónasar Hallgrímssonar í ritlist við Háskóla Íslands.
Guðmundur Hálfdanarson, forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, og Vilborg Davíðsdóttir við undirritun samnings um starf Jónasar Hallgrímssonar í ritlist.