Skip to main content
7. september 2015

Team Spark ætlar sér stóra hluti í vetur

Metfjöldi verkfræðinema mun í vetur standa að Team Spark, hönnunar- og kappakstursliði Háskóla Íslands, og stefnir hópurinn ótrauður á Formula Student keppnina á Silverstone á næsta ári. Nýtt lið kom saman til síns fyrsta fundar á dögunum.

Allt frá árinu 2011 hefur lið frá Háskóla Íslands tekið þátt í Formula Student hönnunarkeppninni á Silverstone-brautinni í Bretlandi en þar mætast lið frá háskólum víða um heim með kappakstursbíla sem þau hafa hannað sjálf. Keppt er í tveimur flokkum í Formula Student, flokki 1 þar sem lið eru dæmd út frá bæði hönnun einstakra hluta bílsins og akstri hans á kappakstursbraut og í flokki 2 þar sem aðeins hönnun og áætlanir eru kynntar en ekki keppt í kappakstri. 

Lið frá Háskóla Íslands hafa undanfarin tvö ár tekið þátt í flokki 1 með rafknúinn kappakstursbíl og náð góðum árangri. Árið 2014 varð liðið í efsta sæti fyrir endurnýjanleika með bílinn TS14 og fékk auk þess verðlaun sem bestu nýliðarnir í flokki 1. Í ár hafnaði liðið í 43. sæti af 96 með bílinn TS15 en hann var mun léttari og aflmeiri en TS14, eins og sást í hönnunarhluta keppninnar en þar náði TS15 að tvöfalda stigafjölda sinn frá árinu áður og lenti í 24. sæti. Hvorugt árið tókst liðunum hins vegar að tryggja sér rétt til að aka á Silverstone-brautinni en fara þarf í gegnum ítarlegar prófanir til þess að öðlast þann rétt. 

Af þessum sökum mun hönnun á TS16 byggjast að miklu leyti á hönnun TS15. Lögð verður meiri áhersla á endurbætur en það sem hægt er að nýta frá fyrri bíl verður nýtt aftur. „Team Spark hefur síðan 2011 einbeitt sér að smíði frumgerðar af bíl en aldrei haldið áfram með smíðina og gert bílinn áreiðanlegan né þjálfað upp ökumenn að neinu ráði. Það verður meginmarkmiðið nú í vetur,“ segir á heimasíðu liðsins.

Á dögunum kom ný stjórn Team Spark saman en hana skipa Sigríður Borghildur Jónsdóttir, sem er liðsstjóri, Andri Orrason, sem er tæknistjóri, Snorri Tómasson, sem gegnir hlutverki framleiðslustjóra, Laufey Benediktsdóttir, sem er framkvæmdastjóri, Jón Arnar Bríem samskiptastjóri og Pálmar Gíslason sem gegnir hlutverki rafmagnsstjóra. Þau hafa öll reynslu af þátttöku í fyrri verkefnum Team Spark. Hluti hópsins átti fund með Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, nýverið en skólinn hefur undanfarin ár stutt dyggilega við bakið á liðinu.

Fyrsti fundur nýs liðs fór svo fram fyrr í síðustu viku og ljóst er að mikill áhugi er fyrir verkefninu hjá verkfræðinemum. „Það munu um 60 nemendur koma að verkefninu í vetur,“ segir liðsstjórinn Sigríður Borghildur Jónsdóttir, en það er mesti fjöldi sem tekið hefur þátt í starfi Team Spark hingað til.

Markmiðin með TS16 eru skýr að sögn Sigríðar. „Í fyrsta lagi ætlum við að keyra bílinn 100 km á Íslandi til að fínstilla aksturseiginleika hans og þjálfa ökumenn áður en haldið er út á Silverstone-brautina. Í öðru lagi að tvöfalda stigafjölda okkar í Formula Student keppninni með því að taka þátt í fyrsta sinn í aksturshluta hennar. Í þriðja lagi að viðhalda okkar samfélagslegu ábyrgð sem felst í því að efla tækniþekkingu hjá nemendum á öllum skólastigum, stuðla að jafnrétti innan liðsins og halda stefnu okkar sem umhverfisvænt lið. Þar með verður Team Spark fyrirmynd í tæknisamfélaginu á Íslandi,“ segir Sigríður enn fremur.

Óhætt er að segja að þátttakan í Team Spark verði nemendum dýrmætt veganesti því auk ofangreindra atriða takast þeir á við raunverulegt verkefni og komast í snertingu við alvöru framleiðslu í náminu. Þannig geta nemendur nýtt þá þekkingu sem þeir afla sér í skólastofunni og fá þjálfun í skapandi hugsun. „Með þessu móti er það markmið Team Spark að skila af sér betri og reyndari verkfræðinemum út í atvinnulífið,“ segir á heimasíðu liðsins.

Á myndinni má sjá þau Andra Orrason, Sigríði Borghildi Jónsdóttur og Snorra Tómasson ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands,
Nýliðar í Team Spark á námskeiði
Team Spark liðar með kappakstursbílinn TS15 á Silverstone-brautinni í sumar þar sem góður árangur náðist.
Á myndinni má sjá þau Andra Orrason, Sigríði Borghildi Jónsdóttur og Snorra Tómasson ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands,
Nýliðar í Team Spark á námskeiði
Team Spark liðar með kappakstursbílinn TS15 á Silverstone-brautinni í sumar þar sem góður árangur náðist.