Skip to main content
27. september 2016

Sunna og strengjakvartett á fyrstu háskólatónleikunum

""

Ný verk eftir Sunnu Gunnlaugsdóttur, djassleikara og tónskáld, verða flutt á fyrstu háskólatónleikum þessa skólaárs miðvikudaginn 28. september. Tónleikarnir hefjast kl. 12.30 og verða á Litla torgi Háskólatorgs.

Þessar nýju tónsmíðar Sunnu eru fyrir píanó og strengjakvartett. Hvatinn að tónsmíðunum var verkefnið Dagur í lífi þjóðar sem RÚV stóð fyrir í tilefni af hálfrar aldar afmæli sínu og verður á dagskrá 2. október nk. Sunna samdi tónlistina við þáttinn og hlúir hún að stemningunni í íslensku lífi eins og fram kemur í þættinum. Á tónleikunum eru verkin opnuð fyrir lifandi flutning með spunaköflum. 

Með Sunnu leika Greta Salóme Stefánsdóttir og Hlín Erlendsdóttir á fiðlu, Laufey Pétursdóttir á víólu og Gunnhildur Halla Guðmundsdóttir á selló. 

Enginn aðgangseyrir er að tónleikunum og allir eru velkomnir.

Um flytjendur

Sunna Gunnlaugsdóttir er starfandi djassleikari og tónskáld. Hún lærði við Tónlistarskóla FÍH og lauk BM-prófi frá William Paterson í New Jersey og meistaraprófi í Communication Design frá Pratt University í New York. Sunna leikur reglulega á meginlandi Evrópu en hefur einnig komið fram í Bandaríkjunum og Japan. Hún hefur gefið út fjölda geisladiska sem hafa fengið frábærar umsagnir víða um heim og hafa verið tilnefndir til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Sunna var valin flytjandi ársins 2015 á Íslensku tónlistarverðlaununum í mars sl. Hún samdi tónlistina við kvikmyndina Reykjavík sem frumsýnd var fyrr á árinu. Sunna kennir við Tónlistarskóla Garðabæjar og Tónlistarskóla Kópavogs.

Greta Salóme Stefánsdóttir hefur starfað við hin ýmsu verkefni og á mjög breiðu sviði tónlistar. Hún er menntaður fiðluleikari og hefur leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands í fjölmörg ár. Greta Salóme útskrifaðist með meistaragráðu frá LHÍ árið 2012. Síðasta ár hefur hún unnið hjá Disney-samsteypunni þar sem hún hefur haldið tónleikasýningu sem fiðluleikari og söngkona með eigin efni sem og lögum úr Disney-smiðjunni. Hún er einnig konsertmeistari hjá Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Greta Salóme starfar einnig sem lagasmiður og söngkona og keppti fyrir Íslands hönd í söngvakeppni evrópskra sjón-varpsstöðva árið 2012 í og vor. 

Hlín Erlendsdóttir lauk burtfarar- og kennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Að því námi loknu stundaði hún framhaldsnám við Hocschule für Musik í Freiburg í Þýskalandi og lauk þaðan meistaraprófi. Hlín hefur tekið virkan þátt í íslensku tónlistarlífi, leikið með stærri hópum og minni og leikur reglulega með hljómsveit Íslensku óperunnar og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Hlín er lausráðinn fiðluleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands og kennir á fiðlu við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar.

Laufey Pétursdóttir hóf fiðlunám sjö ára gömul við Nýja tónlistarskólann. Hún nam svo við í Tónlistarskólann í Reykjavík. 17 ára að aldri sneri hún sér að víóluleik. Hún lauk kennaraprófi frá Sweelinck Conservatorium í Amsterdam og einleikaragráðu frá Rotterdam Conservatorium. Hún hefur m.a. leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, hljómsveit Íslensku óperunnar en líka með minni kammerhópum. Laufey er fiðlu- og víólukennari við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar.

Gunnhildur Halla Guðmundsdóttir flutti til Íslands haustið 2011 eftir að hafa búið erlendis að mestu leyti í 26 ár. Hún hefur dvalið við nám eða störf í Frakklandi, Danmörku, Ísrael og síðast í Svíþjóð. Þar bjó hún í 16 ár og starfaði meðal annars við Uppsalaháskóla og var fyrsti sellóleikari í kammersveitinni Camerata Upsaliae. Gunnhildur hefur lagt áherslu á að leika samtímatónlist, jafnt með kammerhópum og sem einleikari. Hún hefur jafnframt flutt mikið af sígildum ísraelskum verkum í samvinnu við þýska píanóleikarann Julian Riem. Gunnhildur er nú kennari við nokkra skóla á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem hún spilar við ýmis tækifæri.

Hlín Erlendsdóttir, Sunna Gunnlaugsdóttir, Gunnhildur Halla Guðmundsdóttir, Laufey Pétursdóttir og Greta Salóme Stefánsdóttir.
Hlín Erlendsdóttir, Sunna Gunnlaugsdóttir, Gunnhildur Halla Guðmundsdóttir, Laufey Pétursdóttir og Greta Salóme Stefánsdóttir.