Skip to main content
21. júní 2017

Styrkir til fjölbreyttra verkefna úr Jafnréttissjóði

Fjölmargir starfsmenn og stúdentar við Háskóla Íslands voru í hópi þeirra sem hlutu styrki úr Jafnréttissjóði Íslands á kvenréttindadaginn 19. júní. 

Alls var tæpum 100 milljónum króna úthlutað úr sjóðnum að þessu sinni til 26 verkefna og rannsókna sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna. Fjárhæðir styrkja voru frá hálfri milljón króna upp í 9,5 milljónir en þrír hæstu styrkirnir komu í hlut fræðikvenna sem starfa við Háskóla Íslands eða nánar samstarfsstofnanir hans.

Verkefni Guðrúnar Ingólfsdóttur, bókmenntafræðings við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og doktors íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands, um sjálfsmynd 19. aldar skáldkvenna og glímuna við hefðina hlaut hæsta styrkinn, 9,5 milljóna króna en verkefni Berglindar Rósar Magnúsdóttur, lektors við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, um virkni, val og skyldur foreldra á íslenskum menntavegi hlaut 9 milljóna króna styrk. Þá hlaut verkefni Írisar Ellenberger, nýdoktors við Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, Huldukonur: Hinsegin kynverund kvenna í íslenskum heimildum 1700 – 1960, átta milljóna króna styrk. 

Meðal annarra verkefna sem starfsmenn og nemendur Háskóla Íslands koma að og hlutu styrk að þessu sinni má nefna rannsóknir á umfangi, eðli og kostnaði vegna heimilisofbeldis á Íslandi, þátttöku karla á vettvangi jafnréttismála, fæðingarorlofi og foreldramenningu á Íslandi ásamt stuðningsverkefni vegna kvenna af erlendum uppruna sem sætt hafa heimilisofbeldi. Þá hlutu rannsóknir og verkefni á sviði jafnréttismála í Afríku á vegum starfsmanna skólans styrki og alþjóðleg ráðstefna um landamærapólitík, þjóðernishyggju og femínisma sömuleiðis.

Nánari upplýsingar um styrkt verkefni má finna á vef Stjórnarráðsins.

Fram kemur á vef stjórnarráðsins að Jafnréttissjóður Íslands hafi verið stofnaður árið 2015 í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. Hlutverk sjóðsins er að styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu. 

Styrkhafar úr Jafnréttissjóði Íslands ásamt félags- og jafnréttisráðherra.