Skip to main content
24. janúar 2016

Stuttleikrit á RÚV eftir nemendur í ritlist

Undanfarna þrjá sunnudaga hafa verið flutti þættir í Útvarpsleikhúsinu á Rás 1 undir heitinu „Grimmdarverk“ með stuttleikritum og einleikjum eftir ritlistarnema í Háskóla Íslands og nemendur á sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands. 

Öll verkin eru samin í anda franska leikhúsmannsins Antonins Artaud og hugmynda hans um „leikhús grimmdarinnar“.  Í þáttunum flytja Guðrún Kristinsdóttir hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands og Trausti Ólafsson texta eftir Artaud auk þess sem sagt verður frá honum og verkum hans. Trausti Ólafsson er leikstjóri og stundakennari í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands en hann er umsjónarmaður þáttanna og hugmyndasmiður. Hann á að auki eitt verk sem flutt er í þáttunum. 

Síðasti þátturinn í þessari röð var fluttur í dag, sunnudaginn 24. janúar, en allt efnið er nú aðgengilegt í Sarpinum á RÚV. 

Trausti segir að þessir þættir skipti nemendur miklu máli. „Vinna nemenda verður sýnileg og aðgengileg fyrir almenning, útvarpshlustendur fá svo nasaþef af því sem nemendur eru að fást við í skapandi námi í Háskóla Íslands og í Listaháskólanum.“

Hann segir að nemarnir fái líka að kynnast því hve margþætt vinna liggi að baki áður en útvarpsleikrit sé tilbúið til útsendingar. „Einnig er vert að vekja athygli á því að í þessu tilviki var samvinna við nemendur úr Listaháskóla Íslands og nemendur kynntust innbyrðis við gerð þáttanna, bæði undirbúning og í stúdíóinu.“

Trausti segir að verkefni af þessu tagi verði til þess að nemendur fái tækifæri til þess að láta reyna á sköpunarhæfni sína í þverfaglegri samvinnu við leikara, leikstjóra og tæknimann. „Einnig virkar það óneitanlega örvandi á höfunda að fá verk sín birt á opinberum og viðurkenndum vettvangi,“ segir Trausti. 

Höfundar leikþáttanna eru Eyþór Gylfason, Gréta Kristín Ómarsdóttir, Haukur Valdimar Pálsson, Jóhanna María Einarsdóttir, Jóhannes Ólafsson, Ólafur Steinn Ingunnarson, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Rakel Brynjólfsdóttir, Sigrún Valdimarsdóttir, Trausti Ólafsson og Þorvaldur Sigurbjörn Helgason.

Leikstjórar eru Ásdís Skúladóttir, Jóhanna María Einarsdóttir,  Jóhannes Ólafsson,  Ólafur Steinn Ingunnarson,  Ragnheiður Harpa Leifsdóttir,  Sigrún Valdimarsdóttir,  Trausti Ólafsson,  Þorvaldur Sigurbjörn Helgason og Þórunn Magnea Magnúsdóttir. Auk þess koma 34 leikarar og flytjendur fram í þáttunum.

Eva Sóley Sigurðardóttir og Sigrún Valdimarsdóttir unnu að samsetningu og uppbyggingu handrits þáttanna ásamt Trausta Ólafssyni sem hafði umsjón með gerð þeirra.

Kjartan Holm er höfundur frumsaminnar tónlistar sem flutt var í þáttunum.

Guðrún Kristinsdóttir og Trausti Ólafsson