Skip to main content
17. febrúar 2015

Starf Jónasar Hallgrímssonar í ritlist

""

Hugvísindasvið Háskóla Íslands hefur stofnað til starfs sem kennt er við Jónas Hallgrímsson, eitt ástsælasta ljóðskáld Íslendinga fyrr og síðar. Starfið er ætlað rithöfundum sem taka að sér að vinna með nemum í ritlist eitt eða tvö misseri í senn. Tilgangurinn með stöðunni er að heiðra minningu Jónasar Hallgrímssonar og að efla ritlistarnám við Háskóla Íslands.

Fyrstur til að gegna starfi Jónasar Hallgrímssonar verður Sigurður Pálsson, rithöfundur og þýðandi. Sigurður er fæddur á Skinnastað í N-Þingeyjarsýslu árið 1948. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík stundaði hann nám við Sorbonne-háskóla í leikhúsfræðum, bókmenntum og kvikmyndum og lauk þaðan meistaranámi og síðan DEA-gráðu í leikhúsfræðum.

Sigurður hefur verið mikilvirkur rithöfundur um langt skeið. Hann hefur m.a. sent frá sér ljóðabækur, skáldsögur, endurminningabækur, leikrit og þýðingar. Ljóð námu völd var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1993 og fyrir Minnisbók hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2007. Þá hlaut hann Grímuverðlaunin árið 2008 fyrir leikritið Utan gátta. Frakkar hafa heiðrað hann fyrir þýðingar sínar og Reykvíkingar hafa gert hann að borgarlistamanni. Nýjasta bók Sigurðar er Táningabók, þriðja bindið í endurminningabálki hans. Þýðingar á ljóðum hans hafa birst á rúmlega tuttugu tungumálum. Ljóðasöfn með úrvali ljóða hans hafa komið út á frönsku, ítölsku, ensku, spænsku, arabísku, búlgörsku, bengölsku og hindí.

Sigurður hefur um árabil komið að kennslu í ritlist við Háskóla Íslands, einkum ljóðagerð. Hann hefur verið vinsæll og virtur kennari sem er vel að því kominn að gegna þessu nýja starfi fyrstur manna.

Ritlist

Ritlist er í boði sem meistaranám og sem aukagrein í grunnnámi. Ritlist hefur verið kennd við Háskóla Íslands frá 1987 en varð fyrst að fullgildri aðalgrein árið 2008. Meistaranám í greininni var tekið upp árið 2011 og fyrstu meistaranemarnir útskrifuðust árið 2013. Mikil aðsókn hefur verið að ritlistarnámi undanfarin ár og hafa færri komist að en vildu. Frá 2008 hafa ritlistarnemar sent frá sér ríflega 40 verk og unnið til nokkurra verðlauna, m.a. Íslensku barnabókaverðlaunanna, Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar, Fjöruverðlaunanna og Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Ritsmiðjur á grunnstigi eru opnar öllum háskólanemum meðan pláss leyfir. Tekið er inn í meistaranám í ritlist einu sinni á ári og er umsóknarfrestur til 15. apríl ár hvert. Senda skal allt að 30 síður af frumsömdu efni með umsókninni og velur inntökunefnd úr hópi umsækjenda. Upplýsingar um ritlistarnám veitir Rúnar Helgi Vignisson, dósent í ritlist, n. rhv@hi.is, s. 525 5101.

Jónas Hallgrímsson

Jónas Hallgrímsson fæddist 16. nóvember árið 1807 að Hrauni í Öxnadal, þar sem „háir hólar, hálfan dalinn fylla“. Hann var sonur hjónanna Hallgríms Þorsteinssonar aðstoðarprests og Rannveigar Jónasdóttur. Jónas stundaði almennt nám í Bessastaðaskóla í sex vetur frá 1823 til 1829 og naut til þess skólastyrks. Árið 1832 sigldi Jónas til Kaupmannahafnar og hóf þar nám í lögfræði en sneri sér síðar alfarið að náttúruvísindum. Á námsárunum í Kaupmannahöfn stofnaði Jónas tímaritið Fjölni ásamt þeim Brynjólfi Péturssyni, Konráði Gíslasyni og Tómasi Sæmundssyni. Einnig orti hann kvæði, skrifaði sögur, samdi og flutti erindi og vann að ýmsum þýðingum. Mörg ljóða hans lifa góðu lífi með þjóðinni enda er oft vísað til hans sem listaskáldsins góða.

Jónas lést í Kaupmannahöfn þann 26. maí 1845 eftir að hafa fótbrotnað í stiganum heima hjá sér.

Sveinn Yngvi Egilsson, forseti Íslensku- og menningardeildar, Sigurður Pálsson, Rúnar Helgi Vignisson, dósent í ritlist og Ástráður Eysteinsson, forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.