Skip to main content
29. nóvember 2016

Standa að ráðstefnu um gerendur í heimilisofbeldi

Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands - RIKK - er skipuleggjandi norrænnar ráðstefnu um heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum sem fer fram í Helsinki dagana 30.-nóvember til 2. desember. Þar verður sjónum verður beint að gerendum á Norðurlöndum og leitað leiða til að brjóta upp vítahringi ofbeldis.

Tilgangur ráðstefnunnar er enn fremur að auka þekkingu í málaflokknum og kanna ólíkar leiðir til að fást við heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Á ráðstefnunni verða kynntar nýjar rannsóknaniðurstöður norrænnar skýrslu um leiðir til að koma í veg fyrir heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum og komið á fót vettvangi til að deila þekkingu og ræða innleiðingu Istanbúlsáttmálans svokallaða. Þá er ætlunin að mynda norrænt net fagfólks sem kemur að málefnum gerenda.

Meðal fyrirlesara eru bæði nemendur og starfsmenn Háskóla Íslands auk fulltrúa annarra íslenskra stofnana. Þá verða fulltrúar frá hinum norrænu ríkjunum, sem fást við málaflokkinn, einnig með erindi á ráðstefnunni sem hugsuð er fyrir stefnumótendur og sérfræðinga, frjáls félagasamtök, rannsakendur og fulltrúa stofnananna innan Norðurlandanna sem vinna að málum sem tengjast ofbeldi í nánum samböndum.

RIKK sér um skipulag ráðstefnunnar í samstarfi við landlæknisembætti Finnlands (THL) og félags- og heilbrigðisráðuneytið þar í landi. Viðburðurinn er hluti af framlagi Finna sem fara með forsæti í Norrænu ráðherranefndarinni árið 2016 og nýtur stuðnings nefndarinnar.

Hægt er að fylgjast með fréttum af ráðstefnunni á Twitter, Facebook og á vef hennar.  

Logo ráðstefnunnar
Logo ráðstefnunnar