Skip to main content
4. september 2015

Skýrsla um nám í íþrótta- og heilsufræði að Laugarvatni

Síðastliðið vor setti þáverandi rektor Háskóla Íslands á stofn nefnd sem skoða skyldi sóknarfæri í námi í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands og hefur hún skilað niðurstöðu sinni í ítarlegri skýrslu. Í nefndinni voru starfsmenn í stjórnsýslu skólans, Ásta Möller sem var formaður, Magnús Lyngdal Magnússon og Sigurbjörg Ingibjörg Lövdahl. Við vinnslu skýrslunnar voru m.a. tekin viðtöl við stjórnendur, kennara, starfsfólk, fulltrúa nemenda og forsvarsmenn sveitarfélagsins Bláskógabyggðar um sóknarfæri og framtíðarsýn þeirra um námið. 

Námsbraut í íþrótta- og heilsufræði er ein þriggja námsbrauta Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Grunnnám í íþrótta- og heilsufræði er staðsett að Laugarvatni en framhaldsnámið er í Reykjavík í húsnæði Menntavísindasviðs í Stakkahlíð.

Skýrslan var til umfjöllunar á fundi háskólaráðs Háskóla Íslands í gær, fimmtudaginn 3. september. Háskólaráð samþykkti að fela rektor Háskóla Íslands að skipa starfshóp til að fara yfir þá valkosti sem tilgreindir eru í skýrslunni varðandi framtíð náms, kennslu og rannsókna í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands ásamt framkomnum athugasemdum. Í þessu felst að greina faglegar og fjárhagslegar forsendur, staðsetningu og þörf fyrir húsnæði, búnað og aðstöðu. Starfshópnum yrði falið að hafa samráð við fræðasvið háskólans og fulltrúa nemenda. Vinnunni yrði hraðað eins og kostur er og geri starfshópurinn grein fyrir stöðunni á næsta fundi háskólaráðs. Formaður hópsins verði Guðmundur R. Jónsson, prófessor og framkvæmdastjóri fjármála og reksturs.

Nokkrir þættir sem koma fram í skýrslu um sóknarfæri í námi í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands:  

Mikil fækkun nemenda í grunnnámi í íþrótta- og heilsufræði 

Frá vormisseri 2010 til haustmisseris 2015 hefur orðið 54% fækkun á nemendafjölda í grunnnámi íþrótta- og heilsufræði að Laugarvatni. 124 nemendur voru skráðir á vormisseri 2010 en skráðir nemendur á haustönn 2015 eru 57 (18 á 3. ári, 13 á 2. ári og 26 nýnemar). Um 60 nemendur eru í framhaldsnámi í íþrótta- og heilsufræði, sem er staðsett í Reykjavík.

Til að tekjur og gjöld skv. núverandi reiknilíkani verði í jafnvægi þarf að lágmarki 120 nemendur í grunnnámið.

Meginástæður minnkandi aðsóknar:

Staðsetning námsins að Laugarvatni 

- Mikill áhugi er meðal ungs fólks á námi í íþrótta- og heilsufræði á námskynningum en úr honum dregur við vitneskju um staðsetningu námsins. 

- Afreksíþróttafólk og ungmenni sem æfa að staðaldri undir leiðsögn þjálfara setja fyrir sig að vera landfræðilega fjarri þjálfara, félögum og aðstöðu til þjálfunar og æfinga.  

- Fjarlægð frá fjölskyldu og vinum, takmarkaðir möguleikar til afþreyingar utan skóla og til launaðra starfa með námi hafa einnig áhrif.

- Samkeppni við Háskólann í Reykjavík, fyrst og fremst vegna staðsetningar hans í Reykjavík.

Í samræmi við fækkun í kennaranámi almennt eftir að kennararéttindanám var lengt í fimm ár. 

Ímynd og skipulag námsins

- Nemendur hafa áhuga á að starfa við fagið á breiðum grunni sem kallar á meira val um námsframboð, fjarnám auk staðnáms, en einnig fjölbreyttari og styttri námsleiðir.

- Þrátt fyrir að menntun í íþrótta- og heilsufræði gefi fjölbreytta starfsmöguleika að námi loknu hefur námið fyrst og fremst sterka ímynd í hugum nemenda sem íþróttakennaranám.

Mannvirki 

Byggingar Háskóla Íslands að Laugarvatni eru alls um 8000 fermetrar sem, þegar deilt er á nemendafjölda, er langt umfram fermetrafjölda á hvern nemanda í heild við háskólann (11 fermetrar á nemanda í heild).  

Tímabilið 2009-2014 hafa gjöld námsbrautarinnar umfram tekjur verið alls um 190 m.kr.  vegna reksturs og viðhalds fasteigna (þ.a. 37 m.kr. árið 2014). Aðstaðan að Laugarvatni þarfnast enn fremur endurnýjunar sem mun kosta tugi milljóna króna. 

Nefndin setti fram þrjá valkosti um sóknarfæri í námi í íþrótta- og heilsufræði:

1. Grunnnám í íþrótta- og heilsufræði verði áfram að Laugarvatni með breyttu sniði. 

- Boðið verði upp á blandað nám í stað staðnáms, boðið upp á styttri námsleiðir þ.m.t. diplómanám, nemendur komi í staðlotur en hafi ekki fasta búsetu á Laugarvatni.

- Kallar á miklar endurbætur á húsnæði.

2. Grunnnám í íþrótta- og heilsufræði verði flutt til Reykjavíkur.

- Nægilegt rými fyrir bóklegt nám í Stakkahlíð. Íþróttahús í eigu Háskóla Íslands er í Stakkahlíð en að öðru leyti yrði samið við Reykjavíkurborg og íþróttafélög um aðstöðu vegna verklegs náms og þjálfunaraðstöðu.

- Auknir möguleikar á samvinnu við tengdar fræðigreinar og íþróttahreyfinguna. 

- Aukin samfella í grunn- og framhaldsnámi og aukið val nemenda.

3. Grunnnám í íþrótta- og heilsufræði verði staðsett í Reykjavík og skipulagt í samstarfi Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri.

- Styrkir samstarf skólanna, eykur aðsókn nemenda á landsbyggðinni í greinina, styrkir starf Háskóla Íslands utan Reykjavíkur. 

Skýrslan í heild sinni.

Kona í sundi á Laugarvatni
Kona í sundi á Laugarvatni