Skip to main content
14. september 2015

Skýrsla Hagfræðistofnunar vegna nýs Landspítala

Háskóli Íslands fól Hagfræðistofnun að fara yfir ólíka valkosti um smíði nýs húsnæðis fyrir Landspítala - háskólasjúkrahús og voru þeir bornir saman við þann kost að halda nýbyggingum í lágmarki. Skýrslan er nú aðgengileg á vef skólans.

Landspítali – háskólasjúkrahús er einn af helstu samstarfsaðilum Háskóla Íslands og leið vinnustaður bæði fjölmargra starfsmanna skólans og einnig nemenda á Heilbrigðisvísindasviði. Á þeim grundvelli var Hagfræðistofnun falið að gera úttekt á kostnaði og ábata af byggingu nýs Landspítala þar sem fyrri greiningar voru rýndar og lagt mat á þær forsendur sem lagðar hafa verið til grundvallar um stærð og notkun hins fyrirhugaða spítala. Þá voru skoðaðir ólíkir valkostir um smíði nýs húsnæðis og þeir bornir saman við þann kost að halda nýbyggingum í lágmarki. 

Í skýrslu Hagfræðistofnunar er horft til tveggja kosta. Annars vegar að ráðast einungis í lágmarksviðhald og endurbætur á núverandi húsakosti og hins vegar að endurnýja stóran hluta af húsnæði spítalans. Þar er gert ráð fyrir að dregið sé úr nýbyggingum miðað við upphaflegar ráðagerðir um nýtt húsnæði spítalans en megnið af þeim breytingum sem auka eiga hagkvæmni í rekstri halda sér. 

Kostnaður við nýbyggingar hefur verið metinn umtalsverður en á móti er í skýrslunni metinn hagur spítalans og sjúklinga af hagkvæmara húsnæði. Þar er stuðst við erlendar rannsóknir. Annars vegar er lagt mat á sparnað í rekstri spítala sem hannaðir eru í svipuðum anda og nýtt húsnæði Landspítalans. Nokkuð er talið að sparist, til dæmis vegna minni kostnaðar af slysum og mistökum starfsfólks, hraðari bata sjúklinga í björtum og rúmgóðum einkaherbergjum og fátíðari flutninga sjúklinga um spítalana. Hins vegar er horft á vilja sjúklinga til þess að greiða fyrir að vera í einkaherbergi. 

Auk þess hefur hagdeild Landspítalans metið umtalsverðan rekstrarbata af því að færa starfsemi Landspítalans á einn stað. Í skýrslunni er einnig bent á að norska ráðgjafarfyrirtækið Hospitalitet hafi komist að svipuðum niðurstöðum í ljósi áætlana um rekstur spítala í Noregi og Danmörku. Hagfræðistofnun segist í skýrslunni skorta forsendur til þess að leggja mat á hag af sameiningu starfsemi Landspítalans, en benda megi á að nóg sé að sparnaður af sameiningunni sé helmingur eða ríflega það af mati hagdeildar Landspítalans og Hospitalitets til þess að endurnýjun stórs hluta húsnæðisins sé hagkvæmari en lágmarksviðhald og endurbætur.

Þá segir í skýrslunni að kostnaðaráætlanir við nýtt húsnæði séu unnar eins og best gerist og meiri ástæða sé til að óttast að dýrara verði að endurnýja eldra húsnæði spítalans en ráðgert er. Mjög dýrt geti reynst að koma gömlu húsnæði í svipað horf og nýtt. Á móti er bent á að viðkvæmasta starfsemi spítalans verði einkum í nýju húsnæði. 

Í skýrslunni er enn fremur bent á að niðurstöður úr þjóðhagslíkani bendi til að nokkurra þensluáhrifa muni gæta af svo viðamiklum framkvæmdum sem smíði nýs húsnæðis Landspítala er. 

Skýrsluna í heild sinni má sjá hér

Landspítali
Landspítali