Skip to main content
29. júní 2016

Skoðaði sérstöðu íslenska lyfjaiðnaðarins

""

Lyf eru ein stærsta útflutngsafurð þjóðarinnar sem ekki byggist á náttúruauðlindum. Þetta sýnir ný skýrsla um stöðu íslenska lyfjaiðnaðarins sem Daði Freyr Ingólfsson, meistaranemi í lyfjafræði við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, vann. 

Íslenski lyfjaiðnaðurinn er nokkuð umfangsmikill miðað við stærð þjóðarinnar. Stór lyfjafyrirtæki á borð við Actavis og Alvogen hafa fundið hér hagkvæmt rekstarumhverfi og skapað fjölda starfa og talsverð verðmæti fyrir íslensku þjóðina. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að á síðustu tíu árum hafi lyf verið um 2% af heildarútflutningsverðmæti þjóðarinnar og um 6-10% þegar ál og fiskur eru tekin út. Lyf eru því ein stærsta útflutningsafurðin sem ekki grundvallast á því sem landið gefur af sér. Lyfjaiðnaðurinn er enn fremur einn af fáum hér á landi sem byggir framleiðslu sína á innflutningi á hráefni og skapar verðmæti úr þeim með hugviti og þekkingu. 

Í skýrslunni kemur fram að sérstaða íslenska lyfjaiðnaðarins skapist að mestu af hagstæðu einkaleyfaumhverfi. Þar kemur þó einnig fram að á Íslandi er mikil þekking fyrir hendi og fjöldi starfsfólks með góða menntun. Það er lykilatriði til þess að tryggja m.a. gæði og öryggi í framleiðslu. Lyfjafræðideild Háskóla Íslands gegnir þar mikilvægu hlutverki en deildin útskrifar að jafnaði í kringum 18 lyfjafræðinga á ári og þá stundar fjöldi innlendra og erlendra doktorsnema vísindarannsóknir við deildina. Vísindastarf við Lyfjafræðideild er eitt það öflugasta við Háskóla Íslands og hafa útskrifaðir nemendur átt greiða leið að spennandi atvinnutækifærum í íslenska lyfjaiðnaðinum. 

Daði Freyr vann skýrsluna sem meistaraverkefni sitt við Lyfjafræðideild. Leiðbeinendur hans voru Hákon Hrafn Sigurðsson, prófessor við Lyfjafræðideild, og Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Daði Freyr var einn fjölda nemenda sem brautskráðist frá Háskóla Íslands sl. laugardag. 

Lyfjafræðinemar að störfum
Lyfjafræðinemar að störfum