Skip to main content
22. maí 2015

Skipulagði ráðstefnu um umbætur á fjármálakerfinu

""

Guðrún Johnsen, lektor við Viðskiptafræðideild, var meðal skipuleggjenda ráðstefnu sem fram fór á dögunum í Washington DC og bar heitið Finance and Society.

Á ráðstefnunni komu fram heimsþekktir og nafntogaðir fyrirlesarar, en tilgangurinn var að ræða möguleika á umbótum á fjármálakerfinu svo það gæti gagnast samfélaginu í heild. Ráðstefnan var vel sótt og fékk mikla umfjöllun í fjölmiðlum í Bandaríkjunum.

Að ráðstefnunni stóðu The Institute for New Economic Thinking og sérstök nefnd sem sett var á laggirnar til að skipuleggja hana. Guðrún Johnsen sat í þessari nefnd auk þeirra Anat Admati, frá Stanford-háskóla, Ceyla Pazarbasioglu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Signe Krogstrup frá Svissneska seðlabankanum.

Á ráðstefnunni fluttu erindi nokkrar af áhrifamestu manneskjum heims úr fjármálageiranum. Meðal þeirra var öldungadeildarþingmaðurinn Elizabeth Warren, Janet Yellen, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, og Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Frá því að fjármálakreppan hófst árið 2008 hefur mikil umræða verið um endurbætur á efnahagskerfinu sem auki ábyrgð og skyldur stærstu aðila á fjármálamörkuðum heims. Þrátt fyrir að þessi málefni hafi hlotið mikla opinbera athygli og margþættar umbætur hafi þegar verið gerðar er að sögn aðstandenda ráðstefnunnar vart hægt að segja að tekist hafi að færast nær þessu takmarki á heimsvísu. Hátt flækjustig, sérhagsmunir og veik stjórnkerfi draga úr getu fjármálakerfisins til þess að þjóna hagsmunum samfélagsins.

Viðfangsefnin eru fjölbreytt og til þess að geta skapað heilbrigt efnahagskerfi voru fengnir leiðtogar út háskólasamfélaginu, seðlabönkum, frá opinberum eftirlitsstofnunum, ríkisstjórnum, réttarkerfinu og fjölmiðlum til að flytja erindi og ræða möguleikana.

Þessar umræður fóru allar fram á opinberum vettvangi og eru aðgengilegar á vef The Institute for New Economic Thinking, www.ineteconomics.org, smellið hér til að komast á vef stofnunarinnar.

Til þess að fagna og styðja við aukna fjölbreytni þegar kemur opinberri stefnumótun var lögð áhersla á að fá stóran hóp kvenleiðtoga til þess að flytja erindi, meðal þeirra voru fyrrnefndar Elizabeth Warren, Janet Yellen og Christine Lagarde.

Hér má sjá ræðuna sem Guðrún Johnsen flutti á ráðstefnunni:

Hér að neðan má horfa á viðtal sem tekið var við Guðrúnu í tilefni af ráðstefnunni:

Frá vinstri:Brooksley Born, Signe Krogstrup, Guðrún Johnsen, Ceylar Pazarbasioglu. Mynd fengin héðan: www.beta.ineteconomics.org.