Skip to main content
30. ágúst 2015

Skemmtun, fræðsla og fjör á nýnemadögum

Tónleikar, örnámskeið, danssýning, gönguferðir og kynningar á þjónustu Háskóla Íslands eru meðal þeirra glæsilegu dagskrárliða sem í boði verða á nýnema- og stúdentadögum sem haldnir verða 31. ágúst - 4. september á Háskólatorgi. Um þessar mundir streyma rúmlega 3000 nýir nemendur í skólann og er allt kapp lagt á að taka vel á móti þeim, fræða þá um háskólasamfélagið og bjóða þá velkomna.  

Mánudaginn 31. ágúst kl. 11.30 hefjast nýnemadagarnir með pompi og prakt á Háskólatorgi þar sem skólinn kynnir þá glæsilegu þjónustu sem nemendum stendur til boða. Þar geta nemendur fengið ýmsar upplýsingar, náð sér í bæklinga og spjallað við starfsfólk. Á torginu verða til að mynda fulltrúar frá Skrifstofu alþjóðasamskipta, Náms- og starfsráðgjöf, Nemendaskrá, Tölvuþjónustunni/Uglunni, Stúdentaráði, Landsbókasafni, Tungumálamiðstöðinni, Ritveri, Háskólakórnum, Háskóladansinum, Stúdentaleikhúsinu og Heilsutorgi. 

Í tengslum við kynninguna hefur verið efnt til spurningaleiks á Uglunni, innri vef skólans, þar sem í boði eru  veglegir og hagnýtir vinningar. Þátttakendur þurfa mæta á nýnemakynninguna og taka vel eftir. Eldri nemendum er að sjálfsögðu frjálst að spreyta sig á spurningunum og taka þátt í nýnemadögunum.

Taka þátt í spurningaleik á Uglunni

Sérstakt upplýsingaborð fyrir nýnema verður opið alla vikuna kl. 10-14 á Háskólatorgi og Stúdentaráð býður upp á gönguferðir og fræðslu um háskólasvæðið kl. 12.30 mánudag og þriðjudag. Lagt verður af stað frá upplýsingaborðinu. 

Hin landsþekkta hljómsveit Dikta verður með tónleika á Háskólatorgi þriðjudaginn 1. september kl. 12 og skemmtir gestum og gangandi.  Einnig verður opinn fyrirlestur um skiptinám kl. 12.30 í stofu 102 í Gimli þennan sama dag en kynningin er á vegum Skrifstofu alþjóðasamskipta. 

Soffía Björg, söngkona og lagahöfundur, flytur sína angurværu dægurtónlist á Háskólatorgi miðvikudaginn 2. september. Náms- og starfsráðgjöf verður enn fremur með opinn örfyrirlestur sem ber heitið „Að hefja nám við Háskóla Íslands“ kl. 12.30 í stofu HT-300. Hann er öllum opinn.

Fimmtudaginn 3. september er Háskóladansinn með danssýningu á Háskólatorgi og kynnir starfssemi sína kl. 12. Stúdentadagar Stúdentaráðs hefjast í skeifunni við Aðalbyggingu sama dag en þar munu nemendafélög keppa sín á milli, t.d. í fótbolta og kubb.

Háskólakórinn slær botninn í nýnemadaga föstudaginn 4. september kl. 12 og syngur fyrir gesti torgsins. 

Yfirlit yfir dagskrá nýnemadaga má sjá á nýnemasíðum skólans.

""